Viðskipti innlent

Stór farþegaþota rifin í fyrsta sinn á Íslandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Síðasta hjólastellinu ýtt frá skrokknum.
Síðasta hjólastellinu ýtt frá skrokknum. Egill Aðalsteinsson

Fyrsta niðurrif farþegaþotu, sem fram fer hérlendis, er langt komið í Keflavík. Flugvirkjar Icelandair luku í dag við að ná síðasta hjólastellinu undan Boeing-þotu en flugstjórnarklefinn fer svo á flugsafnið á Akureyri.

Hún hét Surtsey, hefði orðið þrítug í vor og var þriðja 757 þotan sem Icelandair keypti nýja beint frá Boeing. En það er komið að leiðarlokum. Í gömlu flugskýli Varnarliðsins á Keflavíkurflugvell er verið að búta hana niður, en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er gert hérlendis.

Hörður Már Harðarson, tæknistjóri viðhaldsstöðvar Icelandair.Egill Aðalsteinsson

„Það er ánægjulegt í þessu ástandi sem er í dag að fá tækifæri sem þetta til þess að geta haldið fólki í vinnu. Það eru alveg tíu til ellefu flugvirkjar sem hafa haft vinnu við þetta í einn og hálfan mánuð,“ segir Hörður Már Harðarson, tæknistjóri viðhaldsstöðvar Icelandair, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Í dag luku flugvirkjar félagsins við að ná síðasta hjólastellinu undan. Að sögn Harðar snýst verkefnið að stórum hluta um að bjarga verðmætum.

„Það eru hátt í tvöþúsund íhlutir sem við erum að taka úr þessari vél,“ segir Hörður. Þeir nýtist áfram með mismunandi hætti. Sumir komi alveg heilir, séu þá vottaðir og fari inn á varahlutalager. Aðrir fari beint í viðhald á viðkomandi verkstæði.

Hjólastellin úr þessari tilteknu vél nýtast þó ekki áfram þar sem líftíma þeirra er lokið. Hreyflarnir eru verðmætastir þess sem fer í endurnotkun og eru þegar komnir inn í viðhaldsstöð Icelandair. Þá segir Hörður mikil verðmæti felast í mörgum tölvukössum sem nýlega hafi verið settir í flugvélina.

Lokaferlið er framundan, að setja flugvélaskrokkinn í málmpressuna.

„Ál er verðmætur málmur og við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð og koma því rétta leið í endurvinnslu,“ segir tæknistjórinn.

Þotan Surtsey í gamla Varnarliðsskýlinu á Keflavíkurflugvelli.Egill Aðalsteinsson

Þó sleppur framhlutinn með flugstjórnarklefanum.

„Við erum búnir að lofa honum á flugsafnið á Akureyri þar sem þetta þykir áhugaverð og skemmtileg flugvél til að geyma. Restin fer í endurvinnslu.“

Sem helsti burðarklár Icelandair undanfarna þrjá áratugi hafa Boeing 757 þoturnar þegar skapað sér stóran sess í flugsögu Íslands. Þetta er sú flugvélartegund sem án nokkurs vafa hefur flutt flesta Íslendinga og raunar fleiri ferðamenn til og frá landinu en nokkurt annað farartæki.

Flugvélin Surtsey, TF-FIJ, rann út úr Boeing-verksmiðjunum í maí árið 1991. Icelandair leigði hana fyrstu tvö árin til Britannia Airways en þar hét hún David Livingstone. Frá árinu 1993 var hún í þjónustu Icelandair og náði alls um 114 þúsund flugstundum á lofti. Sérfróðir menn telja að hún gæti hafa átt metið yfir flognar stundir á þessari flugvélartegund.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Þrítugar 757-þotur þurfa að endast lengur hjá Icelandair

Icelandair gerir ekki ráð fyrir að MAX-þoturnar nýtist félaginu næsta sumar og neyðist því til að halda elstu Boeing 757-þotum sínum enn lengur í rekstri en meðalaldur þeirra hjá félaginu er orðinn 24 ár.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
2,9
82
106.936
ICESEA
0,41
2
6.086
VIS
0,32
9
191.838
ORIGO
0,24
3
1.239
BRIM
0
5
2.969

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
MAREL
-1,57
32
267.439
ARION
-1,24
25
511.397
HAGA
-1,24
10
421.666
SIMINN
-1,19
5
124.815
EIK
-1,13
3
4.919
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.