Viðskipti innlent

Þoturnar voru 36 í fyrra, núna duga 2-3 til að flytja farþegana

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 757 þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Boeing 757 þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Mynd/Vísir.

Icelandair er að taka sextán Boeing 757 þotur úr notkun um þessar mundir. Níu þeirra fara til geymslu í bandarískri eyðimörk en hinar verða seldar eða rifnar í varahluti, meðal annars í Keflavík. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Þotan Öræfajökull flaug í gær í síðasta sinn frá Íslandi þegar flugmenn Icelandair flugu henni til niðurrifs í Kansas í Bandaríkjunum. Í morgun flaug svo þotan Snæfellsjökull vestur um haf, sú fyrsta af níu sem fara til geymslu í eyðimörk þar til betur árar.

Þotan Öræfajökull, TF-ISL, flaug í síðasta sinn frá Íslandi í gær.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

En rétt eins og sauðfjárbændur ákveða nú á haustdögum hvaða kindum verði slátrað þurfa ráðamenn Icelandair jafnframt að ákveða hve margar þotur verði á vetur setjandi.

„Við vorum með svona 36 vélar, eitthvað svoleiðis, þegar við vorum í sem allra mestum rekstri hérna á síðustu tveimur árum. Í dag eru þetta.. í raun og veru þarf 2-3 farþegavélar til að uppfylla þörfina sem við fljúgum,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.Stöð 2/Einar Árnason.

Stórum hluta Boeing 757 flotans var strax í vor lagt til langtímageymslu á útistæðum við Leifsstöð. Það þótti í lagi í sumar en þykir verra í íslenskum vetri á Miðnesheiði.

„Þá fer að blása, það er selta í loftinu, sem gera þetta ekkert sérstaklega hentugan stað til að geyma flugvélar.

Við sendum þær til Roswell í New Mexico að þessu sinni, sem er hálfgerð eyðimörk.“

Þrjár þotur hafa verið seldar.

„Það er alltaf gaman að sjá vélarnar öðlast framhaldslíf. Þær eru að fara í fraktbreytingu þessar þrjár og fara síðan í rekstur væntanlega hjá amerískum flugrekstraraðila,“ segir Jens.

Fjórar verða rifnar í varahluti, þar af tvær í Keflavík.

Úr flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli.Mynd/Stöð 2.

„Ef allt gengur upp hjá okkur, þá erum við að prófa í fyrsta skipti núna á næstu vikum að rífa flugvélar hér í Keflavík. Það er mjög spennandi verkefni.

Það þýðir auðvitað að við höfum meiri stjórn á ferlinu, getum tryggt það að við höfum hámarks aðgengi að þeim hlutum sem við viljum sannarlega nýta í okkar vélum. Þetta býr líka til störf og nýja þekkingu, sem er verðmætt í þessu ástandi,“ segir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Fyrir réttu ári var byrjað að ferja Boeing 737 MAX-vélar Icelandair til Spánar:


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×