Viðskipti innlent

Gjöld vegna Co­vid-19 vott­orðs geta marg­faldað ferða­­kostnað

Eiður Þór Árnason skrifar
Sýnatökur einkennalausra fyrir ferðalög fer fram á Suðurlandsbraut.
Sýnatökur einkennalausra fyrir ferðalög fer fram á Suðurlandsbraut. Vísir/vilhelm

Fleiri ríki gera nú kröfu um að flugfarþegar framvísi vottorði um neikvæða niðurstöðu úr nýlegu Covid-19 prófi þegar þeir koma til landsins. Frá og með deginum í dag þurfa allir sem koma til Bandaríkjanna að hafa undir höndum slíkt vottorð en fyrr í mánuðinum tók sú breyting til að mynda gildi í Englandi og Danmörku.

Nálgast þarf slíkt vottorð hjá heilsugæslu en ólíkt hefðbundinni Covid-19 sýnatöku sem er endurgjaldslaus þurfa einstaklingar sem eru sjúkratryggðir á Íslandi að greiða 13.395 krónur til að útiloka sýkingu og fá afhent vottorð þess efnis.

Þá greiða erlendir ríkisborgarar án evrópska sjúkratryggingakortsins og einstaklingar sem eru ekki með fasta búsetu hér á landi og kennitölu 24.475 krónur. Þess fyrir utan getur kostnaðurinn breyst lítillega ef fólk nálgast vottorð utan dagvinnutíma eða þegar um er að ræða börn og eldri borgara. 

Verslunarþyrstir ferðalangar fá ólíklega mikið út úr því að fara til London þessa daganna þar sem útgöngubann er nú í gildi. Getty/Chris Jackson

SMS-skeyti nægir ekki eitt og sér

Ef horft er til þess að hægt er að tryggja sér flugsæti aðra leiðina til London í mars fyrir svo lítið sem 2.813 krónur þegar þetta er skrifað er ljóst að skimunargjaldið getur orðið hlutfallslega drjúgur kostnaðarauki fyrir ferðalanga. Fyrst var greint frá gjaldinu á ferðavefnum Túrista en þar var miðað við 15 þúsund króna fargjald Icelandair til London.

Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu eru SMS-skeyti með niðurstöðu ekki tekin gild í flestum löndum og því ekki vænlegt til árangurs að skrá sig frekar í hefðbundna sýnatöku hjá heilsugæslu til að reyna komast hjá gjaldtökunni.

Þess ber að geta að þeir farþegar sem einungis millilenda á flugvelli í Danmörku þurfa sömuleiðis að framvísa vottorði.


Tengdar fréttir

Leggur til að fólk þurfi að framvísa vottorði til að komast til landsins

Sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra nýja tillögu um fyrirkomulag við landamærin í ljósi þess að ráðuneytið hefur tjáð honum að ekki sé lagastoð fyrir tillögum hans, hvorki tillöguna um að öllum verði gert skylt að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli né tillögu hans um tveggja vikna dvöl í farsóttarhúsi. Þórólfur greindi frá þessu í Reykjavík síðdegis.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×