Handbolti

Einkunnir strákanna okkar á móti Noregi: Gísli Þorgeir bestur

Íþróttadeild skrifar
Það var mjög gaman að sjá Gísla Þorgeir Kristjánsson tæta í sig norsku varnarmennina í kvöld.
Það var mjög gaman að sjá Gísla Þorgeir Kristjánsson tæta í sig norsku varnarmennina í kvöld. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat /

Gísli Þorgeir Kristjánsson lét varnarmenn Norðmanna líta oft illa út í kvöld og stýrði sóknarleik íslenska liðsins sem leit aldrei betur út á þessu heimsmeistaramóti en í hörkuleik á móti sterku norsku liði í kvöld.

Íslenska handboltalandsliðið tapaði með tveimur mörkum á móti Norðmönnum, 33-35, í lokaleik sínum í milliriðli á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi.

Íslensku strákarnir enduðu heimsmeistaramótið í Egyptalandi með góðri frammistöðu á móti sterku norsku liði. Norðmenn voru ekki öruggir með sigurinn fyrr en í blálokin og barátta íslenska liðsins var til mikillar fyrirmyndar. Íslenska liðið hefur spilað vel á móti stórþjóðunum Frakklandi og Noregi en hefur vantað herslumuninn í báðum leikjum.

Varnarleikurinn hefur verið frábær á mótinu en flugbeittur og hraður sóknarleikur Norðmanna skapaði vissulega talsvert meiri vandræði fyrir strákana okkar í leiknum í kvöld.

Sóknarleikur íslenska liðsins, með Gísli Þorgeir Kristjánsson í fararbroddi, gekk aftur á móti mjög vel og var aldrei betri á þessu heimsmeistaramóti en einmitt í kvöld. Gísli var líka besti leikmaður íslenska liðsins og fær fullt hús.

Ólafur Guðmundsson, Ýmir Örn Gíslason og Elliði Snær Viðarsson stimpluðu sig allir inn á þessu móti og þeir fá fimmu fyrir frammistöðuna á móti Noregi.

Leikmenn og þjálfarar fá einkunn á bilinu 1-6 með umsögn, en neðst í fréttinni má sjá hvað hver einkunn þýðir.

Einkunnir Íslands gegn Noregi:

- Byrjunarlið Íslands í leiknum -

Viktor Gísli Hallgrímsson, mark - 4 (10/1 varin skot- 32:48 mín.) Viktor Gísli fékk tækifærið og var með 29 prósent markvörslu sem þarf að vera betra. Það dylst engum sem á horfir að hann er feikilega mikið efni. Með fleiri leikjum og meiri reynslu þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af markvörslu íslenska liðsins. Það er deginum ljósara að Viktor Gísli er á leið í fremstu röð.

Bjarki Már Elísson, vinstra horn - 3 (6/3 mörk - 56:52 mín.) Bjarki hefur átt góða leiki með íslenska liðinu í Egyptalandi. Í leiknum í dag, lokaleik íslenska liðsins, hengdi hann haus og missti einbeitingu sem er ekki er boðlegt hjá manni með hans kunnáttu og getu. Aftur lendir hann í því að fara með góð færi á mikilvægum augnablikum. Það er einfaldlega ekki boðlegt á stóra sviðinu.

Ólafur Guðmundsson, vinstri skytta - 5 (4 mörk - 52:02 mín.) Ólafur skilaði sínu á þessu móti hnökralítið. Var óheppnin með skot í leiknum gegn Noregi, hætti aldrei og ljóst að mun meiri yfirvegun er í öllum hans leik en við höfum áður séð. Þetta er sá Ólafur sem menn hafa verið að bíða eftir frá árinu 2010.

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi - 6 (4 mörk - 29:45 mín.) Gísli Þorgeir sýndi og sannaði að hann er afburðarleikmaður. Hann tætti í sig vörn Norðmanna sem er eitt af bestu liðum heims. Leikskilningur Gísla er í hæsta gæðaflokki. Þetta er leikmaður sem mun komast í fremstu röð á komandi árum. Það er í raun sárgrætilegt að hann hafi meiðst á sínum tíma sem augljóslega hefur tafið hans möguleika með íslenska landsliðinu.

Kristján Örn Kristjánsson, hægri skytta - 2 (1 mark - 9:13 mín.) Kristján fékk að byrja leikinn og byrjaði af krafti. Hann missti hins vegar einbeitinguna og kannski eðlilega. Hann hefði þurft meira traust á mótinu. Hæfileikarnir leyna sér ekki en þá þarf að virkja og það er hlutverk þjálfarateymis íslenska landsliðsins.

Sigvaldi Guðjónsson, hægra horn - 4 (3 mörk - 56:33 mín.) Sigvaldi skilaði sínu gegn leikmönnum sem hann þekkir út og inn enda lék hann í Noregi um árabil. Skilaði fínu verki í leiknum. Enn og aftur bíðum við eftir stórleiknum sem hlýtur að koma. Einn flinkasti hornamaður sem við Íslendingar höfum eignast. Þetta er þarna allt og það þarf bara að galdra það fram.

Elliði Snær Viðarsson, lína - 5 (4 mörk - 40:05 mín.) Elliði er einhver mesti orkubolti sem íslenska landsliðið hefur fengið í fangið á síðustu árum. Engum dylst sem fylgst hefur með mótinu í Egyptalandi að Elliði er búinn að eigna sér línumannsstöðuna í landsliðinu. Það er hins vegar ljóður á leik Elliða að aginn á stundum er ekki til staðar. Úr því þarf hann að bæta á næstu árum.

Ýmir Örn Gíslason, vörn - 5 (5 stopp - 36:39 mín.) Ýmir var að öðrum ólöstuðum einn besti leikmaður íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi. Orkan frá Ými er áþreifanleg í leikjum íslenska liðsins. Orðinn leiðtogi í íslenska liðinu. Takið eftir, hann á mikið inni ennþá og mun bæta sig á næstu tveimur árum í einu besta liði heims. Hataður af andstæðingunum en elskaður af samherjum og Íslendingum.

- Menn sem komu inn af bekknum í leiknum -

Ómar Ingi Magnússon, hægri skytta - 4 (4 mörk - 49:35 mín.) Ómar Ingi hefur átt erfitt uppdráttar á mótinu í Egyptalandi. Hæfileikarnir hreinlega leka af Ómari. Leikskilningur í fyrsta klassa en hann þarf meiri hjálp og stuðning frá þeim sem honum stjórna. Ómar mun á næstu árum verða óborganlegur hlekkur í vegferð íslenska liðsins á toppinn.

Arnar Freyr Arnarsson, lína - 4 (3 mörk - 28:48 mín.) Arnar Freyr átti gott mót í Egyptalandi. Það lætur ekki mikið yfir Arnari en vinnusemin og dugnaðurinn er algjörlega til fyrirmyndar. Verður fastamaður á næstu árum. Vonandi verður hann í hópnum þegar þetta lið hámarkar árangurinn sinn. Það er stutt í það.

Magnús Óli Magnússon, leikstjórnandi - 3 (1 mark - 2:53 mín.) Magnús Óli var með á sínu fyrsta stórmóti. Fékk hins vegar afar lítinn spilatíma til að sýna sig og sanna. Enginn efast um hæfileikana en nú er það Magnúsar að taka skrefið enn lengra. Þar er Olís deildin hans vettvangur.

Ágúst Elí Björgvinsson, mark - 3 (5 varin skot - 13:01 mín.) Kom inn í markið í lokin. Var með 42 prósent markvörslu sem er alls ekki slæmt. Stóð sig kannski betur í þessum leikjum sem íslenska liðið hefur spilað en margir þorðu að vona. Veitir öðrum markvörðum íslenska liðsins aðhald og samkeppni.

Oddur Grétarsson, vinstra horn - spilaði of lítið

Björgvin Páll Gústavsson, mark - spilaði of lítið

Kári Kristjánsson, lína - spilaði ekki

Elvar Örn Jónsson, vinstri skytta - spilaði ekki

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari - 4 Guðmundur hefur verið með vindinn í fangið á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi. Hann fær plús fyrir sóknarleik íslenska liðsins í tveimur síðustu leikjum. Varnarleikurinn er kominn í gott stand. Hins vegar verður að setja spurningarmerki við spennustig íslenska liðsins í leikjunum á móti Portúgal og Sviss. Íslenska liðið virkaði yfirspennt og hver getur stýrt því annar en þjálfarinn. Guðmundur tók við fyrir rúmum þremur árum. Hans markmið hefur verið að koma íslenska liðinu í fremstu röð á nýjan leik. Verkið er hálfnað en auðvitað er margt sem betur má fara. Þjálfarinn hefur verið að munnhöggvast við álitsgjafa á meðan mótinu stóð. Slíkt er engan veginn ásættanlegt.

Útskýring á einkunnum:

  • 6 - Heimsklassa frammistaða
  • 5 - Frábær frammistaða
  • 4 - Góð frammistaða
  • 3 - Sæmileg frammistaða - skilaði sínu
  • 2 - Ekki nógu góð frammistaða
  • 1 - Slakur leikur

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.