Körfubolti

Halda vart vatni yfir ungstirninu í Þorlákshöfn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Styrmir Snær í leik með íslenska U-18 ára landsliðinu á sínum tíma. 
Styrmir Snær í leik með íslenska U-18 ára landsliðinu á sínum tíma.  Hafnarfréttir

Hinn 19 ára gamli Styrmir Snær Þrastarson hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Þór Þorlákshöfn í Dominos-deild karla í vetur. 

„Það er ekki á hverju tímabili sem maður sér svona ´talent´ eins og Styrmi Snæ stíga fram nánast fullmótaðan. Hemmi [Hermann Hauksson] er búinn að segja hvað honum finnst, Teitur [Örlygsson] er búinn að hrósa honum líka,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson – þáttastjórnandi – um hinn öfluga leikmann og spurði Kristinn Friðriksson um hans skoðun.

„Ég sé ungan, efnilegan og hávaxinn dreng sem er með mikið sjálfstraust. Það skiptir hellings máli. Hann er með frábæra líkamsbyggingu fyrir körfuboltamann og hann er að spila eins og sjóaður strákur þrátt fyrir ungan aldur.“

Styrmir Snær er 1.99 metri á hæð og því engin smá smíð. Hann er með 11 stig að meðaltali í fjórum leikjum sínum til þesa í deildinni ásamt því að taka fimm fráköst og gefa þrjár stoðsendingar. Í óvæntum sigri Þórsara gegn Stjörnunni á dögunum var hann með 15 stig, tók níu fráköst og varði tvö skot.

„Mér finnst þessi hik í kringum körfuna vera svo sterk, hann er svo góður að tímasetja. Svo er annað sem hann hefur, það er vörnin. Hann er hörku varnarmaður,“ bætti Kjartan Atli við.

„Hann er að gera þetta á svo flottu tempói. Þessir ungu strákar ætla alltaf að vera svo fljótir að öllu. Hann einhvern veginn hægir á öllu í kringum sig og svo er hann bara farinn,“ skaut Hemmi inn að lokum.

Innslagið um Styrmi Snæ má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Umræða um Styrmi SnæFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.