Handbolti

Alexander: Erfiðasta ákvörðun ferilsins

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Petersson í leiknum við Portúgal, einum af fjórum leikjum sem hann lék á HM í Egyptalandi.
Alexander Petersson í leiknum við Portúgal, einum af fjórum leikjum sem hann lék á HM í Egyptalandi. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Alexander Petersson hefur leikið við afar góðan orðstír með Rhein-Neckar Löwen frá árinu 2012 en snýr nú aftur til Flensburg þar sem hann lék á árunum 2007-2010.

Alexander er á heimleið frá HM í Egyptalandi, af „persónulegum ástæðum“ eins og það er orðað í fréttatilkynningu HSÍ. Hann mun nú ganga frá vistaskiptum sínum norður að landamærum Þýskalands og Danmerkur, til Flensborgar.

Samningur Alexanders við Löwen átti að renna út í sumar og í yfirlýsingu segir Alexander að félagið glími við mikil fjárhagsvandræði vegna kórónuveirufaraldursins. Honum hafi verið gert ljóst að hann fengi ekki nýjan samning og að til stæði að yngja upp leikmannahópinn.

Hjá Flensburg fær Alexander skammtímasamning, sem gildir fram á sumar, og óvíst er hvað tekur við hjá íslenska landsliðsmanninum eftir það en hann verður 41 árs í júlí.

Alexander kvaddi stuðningsmenn Löwen með yfirlýsingu þar sem hann sagði tíðindi dagsins eflaust hafa komið þeim á óvart:

„Þetta kom mér líka á óvart og allir sem þekkja mig vita að sú ákvörðun að yfirgefa Rhein-Neckar Löwen er án vafa erfiðasta ákvörðun ferilsins. Ég hef átt níu stórkostleg ár í Ljónatreyjunni og saman unnum við titla og þróuðum félagið í það sem það er í dag. Félag í fremstu röð,“ sagði Alexander.

Alexander kvaðst virða ákvörðun forráðamanna Löwen.

„En svo lengi sem ég hef kraft til þess þá vil ég spila handbolta. Þess vegna er mikill heiður fyrir mig að fá þetta tilboð frá Flensburg. Það hjálpar að sama skapi Löwen að lifa betur af þessa erfiðu tíma hvað fjárhaginn snertir,“ sagði Alexander.


Tengdar fréttir

Alexander farinn heim frá Egyptalandi

Alexander Petersson leikur ekki meira með Íslandi á HM í Egyptalandi. Hann er farinn aftur til Þýskalands af persónulegum ástæðum.

Alexander fer til Flensburg eftir HM

Alexander Petersson gengur í raðir Flensburg frá Rhein-Neckar Löwen eftir heimsmeistaramótið í Egyptalandi. Hann lék áður með Flensburg á árunum 2007-10.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.