Handbolti

Gummi lá yfir gamla lærisveininum í alla nótt

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson var sjálfsagt djúpt hugsi í nótt eins og hér á hliðarlínunni. Framundan er mikilvægur leikur við Sviss á morgun.
Guðmundur Guðmundsson var sjálfsagt djúpt hugsi í nótt eins og hér á hliðarlínunni. Framundan er mikilvægur leikur við Sviss á morgun. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

„Andy Schmid er náttúrulega frábær leikmaður og einn sá besti sem ég hef nokkurn tímann þjálfað. Ég veit alveg hvað hann getur og allir leikmennirnir mínir líka. Það verður hörkuverkefni að eiga við hann.“

Þetta sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta í viðtali við RÚV í dag. Umræddur Schmid, besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar fimm ár í röð árin 2014-2018, er aðalmaðurinn í landsliði Sviss. Ísland og Sviss mætast kl. 14.30 á morgun í milliriðlakeppninni á HM í Egyptalandi.

Guðmundur þjálfaði Schmid hjá Rhein-Neckar Löwen á árunum 2010-2014 og veit að til að vinna Svisslendinga er lykilatriði að halda leikstjórnandanum magnaða í skefjum.

„Þeir [Svisslendingar] eru líkamlega mjög sterkir og hávaxnir inni á miðjublokkinni. Almennt finnst mér þeir vera með mjög gott lið. Sóknarlega er Andy Schmid náttúrulega potturinn og pannan í öllu sem þeir gera, en það eru frábærir leikmenn líka með honum, bæði í vinstri og hægri skyttu og á línu. Hornamennirnir eru mjög góðir líka,“ sagði Guðmundur við RÚV í morgun áður en íslenska liðið hélt á nýtt hótel fyrir milliriðlakeppnina.

Höfum hingað til varist vel sex gegn sjö

Guðmundur hafði lítið sofið fyrir viðtalið en einbeitt sér að því yfir nóttina að finna lausnir gegn því þegar Svisslendingar skipta markverði sínum út til að hafa sjö sóknarmenn gegn sex varnarmönnum:

„Þetta er gott lið, sem framkvæmir „7 á 6“ frábærlega vel. Andy Schmid er líklega besti leikmaður í heimi hvað þetta varðar, að deila boltanum til vinstri eða hægri, skjóta eða senda á línu. Þetta er illviðráðanlegt. Ég lá yfir þessu til að verða sex í nótt,“ sagði Guðmundur sem er vanur því að leggja gríðarlega vinnu í að leikgreina andstæðinga og undirbúa sín lið fyrir hvern leik.

„Við erum að reyna að skipuleggja framhaldið, hvernig við ætlum að bregðast við þessu. Við höfum hingað til náð að spila nokkuð góða vörn 6 á 7. Við gerðum það á móti Makedóníu 2019 og í framhaldinu höfum við náð þessu nokkuð vel, eins og gegn Portúgal í fyrra og svo aftur á móti Portúgal núna mjög vel. Við höfum því ýmislegt í þessu og þetta er eitt af því sem við þurfum að leysa gegn Svisslendingum því þeir beita þessu vopni mjög mikið,“ sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×