Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 64-74 | Valskonur gerðu góða ferð í Hafnarfjörð

Atli Freyr Arason skrifar
Úr leiknum í kvöld
Úr leiknum í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Vals lögðu Hauka að velli í stórleik dagsins í Dominos deild kvenna í körfubolta.

Liðin voru bæði smá tíma að komast í gang og fóru nokkrar sóknir forgörðum hjá báðum liðum. Þá voru það kanarnir sem sáu um stigaskorunina. Alyesha Lovett skoraði 5 fyrstu stig Hauka og Kiana setti 9 af 11 fyrstu stigum Vals. Valur var skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og komust mest í 7 stiga forskot, 8-15, þegar Hildur Björg setur niður lay-up.Þá voru tæpar 7. mínútur liðnar af leikhlutanum. Haukar minnka þó muninn niður í 13-15 þegar ein mínúta lifði eftir af leikhlutanum og á síðustu sekúndu leikhlutans fær Valur víti eftir að brotið er á Helenu. Baddi þjálfari Hauka var alls ekki sáttur við dóminn en tíminn var mögulega runninn út þegar brotið á sér stað. Helena setur bæði vítin niður og leikhlutinn endar 13-17.

Annar leikhluti var jafn framan af og skiptust liðin á því að setja niður körfur en Valur var þó með yfirhönfina, tók fleiri fráköst og tapaði færri boltum, sem gerði það að verkum að gestirnir náðu hægt og rólega að fjarlægast Haukana í stigasöfnun. Valur vann leikhlutann með 5 stigum, og fyrri hálfleikinn með 9 stigum. 35-44.

Haukarnir komu töluvert grimmari út í síðari hálfleik og voru frábærar í þriðja leikhluta og virtust ætla að gera alvöru leik úr þessu. Leikhlutinn endar 13-9 Haukum í vil og fyrir fjórða leikhluta munar ekki nema 5 stigum á liðunum. Í fjórða leikhluta halda Haukar upp uppteknum hætti og ná að komast yfir í 55-53 þegar einungis 6 mínútur eru eftir leiks. Eftir að Haukarnir komust yfir þá setti Valur í fluggírinn og rúlluðu upp síðustu 6 mínútunum, 9-21, og unnu þar með leikinn með 10 stigum, 64-74.

Af hverju vann Valur?

Valskonur voru rosa duglegar í fráköstunum í kvöld og hirtu alls 50 fráköst gegn 38 hjá Haukunum. Ef þessi tölfræði þáttur hefði verið jafnari hefðum við mögulega verið að sjá allt önnur úrslit.

Hvað gekk illa?

Haukarnir voru of lengi af stað í dag og báru kannski of mikla virðingu fyrir andstæðingum sínum. Þegar þær mættu af fullri hörku í þriðja leikhluta var allt annað Haukalið á vellinum miðað við það sem sást í fyrri háflleik.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila eftir einungis fjóra daga. Haukar eiga þá leik gegn Keflavík á Ásvölllum á meðan Valur fær Snæfell í heimsókn.

Bjarni Magnússon: Blendnar tilfinningar

Bjarni Magnússon, eða Baddi eins og hann er oftast kallaður, átti erfitt með að leyna svekkelsi sínu í viðtali eftir leik.

„Blendnar tilfinningar. Við töpuðum, sem er fúlt. Ég er einnig mjög óánægður með það hvernig við komum inn í leikinn, orkulega séð. Það var ekki nógu gott en mér fannst við bæta það í seinni hálfleik. Frákastalega séð þá skíttöpuðum við baráttunni og það fer svolítið með leikinn fyrir okkur.

Við komum okkur inn í leikinn í þriðja leikhluta og svo kannski vantaði herslumuninn að setja nokkrar tölur í viðbót á þeim tímapunkti. Við fengum tækifæri til að snúa mómentinu við náðum því ekki og þær setja körfur á móti og það er súrt,“ sagði Baddi

Það var allt annað Haukalið sem kom út í þriðja leikhluta en Baddi var spurður að því hvað hann hafi sagt í hálfleiknum til að kveikja í sínum leikmönnum.

„Svo sem ekki mikið, það er alltaf gott að bera virðingu fyrir meisturum en mér fannst við bara gera það alltof mikið í kvöld. Við vorum langt frá þeim, það vantaði alla baráttu og þær vinna alla lausa bolta og fráköst. Þannig það var það eina sem við töluðum um, að koma ákveðnari inn í leikinn og sýna meiri baráttu. Við þurftum að sjá hvar við erum stödd gagnvart besta liði landsins og til þess þarftu að leggja þig fram allan tímann og þá er kannski hægt að taka eitthvað úr leiknum, sjá hvar við erum staddar og hvað við þurfum að bæta. Mér fannst við gera það betur í seinni hálfleik og ég er ánægður með það,“ svaraði Baddi.

Baddi átti það til að æsa sig yfir dómgæslunni á meðan leik stóð en hann vildi þó ekki gera alltof mikið úr því eftir leik.

„Mér fannst frammistaða dómaranna bara fín þó maður sé ekki alltaf ánægður með allt, þá var dómgælsan yfirhöfuð allt í lagi. Mér fannst hins vegar vanta einhverja ákveðna línu. Við þjálfaranir ræddum saman um það eftir leikinn, það var dæmt mikið af villum dæmdar á okkur á tímabili og svo allt í einu snerist það við og Valur fékk engar villur. Mér fannst vanta aðeins smá línu. Dómarnir voru samt bara fínir,“ sagði Baddi að lokum.

Ólafur: Við unnum frákastabaráttuna

Ólafur Jónas Sigurðsson var ansi ánægður með 10 stiga útisigur á Ásvöllum í kvöld.

„Mjög sætt. Maður sá samt strax að orkustigið var ekki alveg eins hátt hjá báðum liðum og það var á miðvikudaginn, en það var mjög sætt að taka þennan sigur gegn mjög góðu Haukaliði,“ sagði Óli í viðtali eftir leik.

„Við unnum frákasta baráttuna sem er mjög gott. Mér fannst samt ekki mikill gæði í leiknum í dag, bæði lið voru mikið að tapa boltanum og nýtingin var ekki frábær en ég er ánægður að ná að sigla þessu heim.“

Kiana virtist slasa sig illa í leiknum en Óli var ekki að stressa sig of mikið á því og henti henni aftur inn á í seinni hálfleik.

„Hún meiddi sig en hún sagði við mig að hún væri góð til að halda áfram. Hún á þó klárlega eftir að finna fyrir þessu á morgun og þá munum við taka stöðuna á þessu,“ svaraði Óli aðspurður um stöðuna á Kiönu.

Það er stutt í næsta leik hjá Val, sem er gegn Snæfell eftir einungis fjóra daga og því er lítill tími til endurheimtar.

„Mér sýnist þær vera mjög þreyttar núna. Það verður smá pása á morgun og svo æfing á mánudag og þá byrjar undirbúningur fyrir næsta leik,“ sagði Óli að lokum

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.