Viðskipti innlent

Ljósa­bekkjum fer fjölgandi á höfuð­borgar­svæðinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Dæmi eru um að sólbaðsstofur hafi boðið upp á miðnæturopnun þegar þeim var heimilt að opna dyr sínar á ný eftir afléttingar á sóttvarnareglum.
Dæmi eru um að sólbaðsstofur hafi boðið upp á miðnæturopnun þegar þeim var heimilt að opna dyr sínar á ný eftir afléttingar á sóttvarnareglum. Getty/Peter Dazeley

Lítilleg fjölgun hefur orðið á þeim fjölda ljósabekkja sem fólki er seldur aðgangur að hér á landi frá árinu 2017. Eru þeir nú 97 talsins og hefur fjölgað um sjö á síðustu þremur árum. Aukningin á sér öll stað á höfuðborgarsvæðinu en fjöldi ljósabekkja á landsbyggðinni hefur minnkað lítillega á sama tímabili.

Þetta kemur fram í reglulegri talningu Geislavarna ríkisins sem hefur farið fram á þriggja ára fresti frá árinu 2005. Er þetta í fyrsta skipti sem ljósabekkjum fjölgar á landsvísu milli mælinga en fjöldi þeirra er nú um þriðjungur þess var fyrir fimmtán árum. Athygli vekur að bekkjunum fjölgar á sama tíma og nýleg könnun benti til að samdráttur væri í ljósabekkjanotkun Íslendinga.

Mikill samdráttur hefur verið í fjölda ljósabekkja frá árinu 2015. Geislavarnir ríkisins

Notkun helmingaðist milli ára

Ef fjöldi ljósabekkja er skoðaður með tilliti til íbúafjölda þá helst hann óbreyttur frá árinu 2017. Reiknast hann nú 0,3 ljósabekkir á hverja þúsund íbúa en voru 0,9 árið 2005. 

Samtals selja 23 staðir almenningi aðgang að ljósabekkjum, samkvæmt talningu Geislavarna ríkisins. Þar af eru níu staðir á höfuðborgarsvæðinu og fjórtán á landsbyggðinni. Eru jafnaði fleiri ljósabekkir á hverjum stað á höfuðborgarsvæðinu.

Í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Geislavarnir ríkisins í nóvember síðastliðnum sögðust um 6% fullorðinna hafa notað ljósabekki einu sinni eða oftar á síðustu tólf mánuðum. Hefur hlutfallið ekki mælst lægra frá því að kannanir hófust árið 2004 en talan mældist 11% árið 2019.

Hlutfall þeirra sem höfðu notað ljósabekki var hæst hjá aldursbilinu 18 til 24 ára, eða 21%. Ekki er hægt að útiloka að kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á mælingarnar á síðasta ári en sólbaðsstofur voru lokaðar hluta ársins af sóttvarnarástæðum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×