Handbolti

Sagosen segir að aðstæður á HM séu eins og í villta vestrinu og óttast að smitast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sander Sagosen og félagar í norska landsliðinu þykja líklegir til afreka á HM.
Sander Sagosen og félagar í norska landsliðinu þykja líklegir til afreka á HM. getty/Robert Michael

Norðmenn eru afar ósáttir við smitvarnir og aðbúnaðinn á HM í handbolta karla í Egyptalandi sem hefst í kvöld. Skærasta stjarna norska liðsins, Sander Sagosen, segir aðstæður á mótinu vera grín og óttast að smitast af kórónuveirunni.

Norska liðið kom til Egyptalands í gær og var langt frá því að vera ánægt með aðstæðurnar sem biðu þess.

„Þetta er grín ef ég tala hreint út,“ sagði Sagosen við Verdens Gang. 

„Þetta gengur ekki upp. Við fengum áfall þegar við sáum aðstæðurnar í gær en núna hugsum við að við getum ekkert í þessu gert. Við fengum að æfa á einhverjum grasbala þar sem við gátum gert styrktaræfingar og farið í fótbolta. En við verðum bara að taka hlutunum eins og þeir eru. Ég ætla bara að eyða orku minni í það sem kom hingað til að gera, spila handbolta.“

Norðmenn dvelja á hóteli í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Kairó, höfuðborg Egyptalands. Sagosen segir að sóttvarnir á hótelinu séu ekki upp á marga fiska og varla hægt að tala um búbblu eins og liðin eiga að vera í til að forðast smit.

„Hérna gengur fólk inn og út grímulaust og allir borða saman. Það virðist ekki vera stjórn á neinu,“ sagði Sagosen sem lét í sér heyra fyrir HM og mótmælti fyrirætlunun mótshaldara um að leyfa áhorfendur á mótinu. Fallið var frá því um síðustu helgi.

Sagosen segist óttast að smitast af kórónuveirunni vegna lélegra sóttvarna á HM.

„Við erum með reglur innan hópsins en hérna er bara frjálst flæði og þetta er eins og villta vestrið. Maður er klárlega smeykur um að smitast en við verðum bara að krossa fingur og vona að það gerist ekki,“ sagði Sagosen.

Liðslæknirinn ósáttur

Læknir norska liðsins, Thomas Torgalsen, furðar sig einnig á aðstæðum á HM, meðal annars því að sýnatökuherbergið sé á sömu hæð á hótelinu og norska liðið. Þá finnst honum skrítið að liðin borði öll í sama matsalnum.

„Ég er undrandi. Á hæðinni okkar er fullt af fólki sem ég hef ekki hugmynd hver eru. Þetta er ruglingslegt,“ sagði Torgalsen.

Norðmenn fengu nýtt lið í sinn riðil á HM í gær þegar Sviss tók sæti Bandaríkjanna sem hætti við þátttöku á mótinu vegna hópsmits í herbúðum liðsins.

Fyrsti leikur Noregs á HM er gegn Frakklandi annað kvöld. Þrjú efstu liðin í E-riðli fara í milliriðil með þremur efstu liðunum í riðli Íslands.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.