Handbolti

Leikmenn biðla til forseta IHF að banna áhorfendur á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarte Myrhol, fyrirliði norska landsliðsins, er meðal þeirra sem skrifuðu undir bréfið til forseta IHF.
Bjarte Myrhol, fyrirliði norska landsliðsins, er meðal þeirra sem skrifuðu undir bréfið til forseta IHF. getty/Jan Christensen

Evrópsku leikmannasamtökin hafa sent Dr. Hassan Moustafa, forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, bréf þar sem þeir biðla til hans að banna áhorfendur á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi.

Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn ætla Egyptar að leyfa áhorfendur á HM sem hefst í næstu viku. Selt verður í fimmtung sæta í hverri keppnishöll, áhorfendur þurfa að virða fjarlægðartakmörk og vera með grímu.

Meðal leikmanna sem hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag eru Norðmaðurinn Sander Sagosen og Danirnir Mikkel Hansen, Henrik Møllgaard og Morten Olsen. Hansen sagðist íhuga að spila ekki á HM og Møllgaard sagði ákvörðun mótshaldara að leyfa áhorfendur heimskulega. Olsen sagði svo að þetta væri týpískt fyrir IHF.

Nú hafa evrópsku leikmannasamtökin sent Moustafa bréf þar sem þau biðla til hans að banna áhorfendur á HM. Þar kemur einnig fram að ef áhorfendur verða leyfðir verði að vera skýrar reglur hvernig leikirnir eigi að fara fram. TV 2 í Noregi greinir frá.

Meðal þeirra sem skrifa undir bréfið er Bjarte Myrhol, fyrirliði norska landsliðsins. Bréfið var sent í gær.

Ekki liggur enn fyrir hvort IHF verður við beiðni leikmannanna en það verður að teljast afar ólíklegt. Hinn umdeildi Moustafa er Egypti og vill eflaust tryggja sínum mönnum sem mestan stuðning á HM.

Engir áhorfendur voru á Evrópumóti kvenna sem fór fram í Danmörku í lok síðasta árs og í flestum deildum heims er leikið fyrir luktum dyrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×