Handbolti

Leyfa fimmtánhundruð áhorfendur á leikjum Íslands

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason fagnar með áhorfendur í baksýn, á Evrópumótinu í Svíþjóð fyrir ári.
Ýmir Örn Gíslason fagnar með áhorfendur í baksýn, á Evrópumótinu í Svíþjóð fyrir ári. EPA/ANDREAS HILLERGREN

Egyptar hafa ákveðið að leyfa áhorfendur á leikjunum á heimsmeistaramótinu í handbolta, þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Þetta kemur fram á heimasíðu mótsins en þar segir að að hámarki verði seldir miðar í 20% af þeim sætafjölda sem sé í hverri keppnishöll. Áhorfendur þurfi að virða fjarlægðarmörk og nota andlitsgrímur.

Í gær lýsti danska stórstjarnan Mikkel Hansen yfir áhyggjum af því að leyfa ætti áhorfendur á mótinu, og kvaðst íhuga að hætta við að spila á mótinu. Taldi hann aukna smithættu fylgja því að hafa áhorfendur.

Stærsta höllin á HM er Cairo International Stadium Hall sem tekur 17.000 manns í sæti. Þar geta því 3.400 áhorfendur mætt á leiki.

Ísland leikur í F-riðli, ásamt Portúgal, Alsír og Marokkó, og fara leikir í þeim riðli fram í New Capital Sports Hall. Sú höll tekur 7.500 manns í sæti, samkvæmt heimasíðu mótsins, og því ættu 1.500 manns að geta mætt á fyrstu þrjá leiki Íslands á mótinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.