Viðskipti erlent

Rannsaka „óábyrga“ auglýsingaherferð Ryanair

Sylvía Hall skrifar
Flugfélagið er farið að auglýsa flug fyrir sumarið.
Flugfélagið er farið að auglýsa flug fyrir sumarið. Joris Verwijst/Getty

Auglýsingamálastofnun Bretlands hafa borist kvartanir vegna auglýsinga flugfélagsins Ryanair, þar sem fólk er hvatt til ferðalaga í ljósi bólusetninga þar í landi. Flestir þeir sem kvarta telja auglýsingarnar villandi og „óábyrgar“ og að þær geri lítið úr áhrifum faraldursins. Stofnunin hefur ákveðið að hefja formlega rannsókn.

Á vefsíðu flugfélagsins má sjá mynd af sprautu og bóluefnaflösku og á meðal slagorða voru „Bókaðu sumar“, „Bóluefnin eru að koma“ og það síðasta, sem mætti þýða á íslensku sem: „Stunga og stokkið af stað“ (e. Jab & go).

Auglýsing Ryanair hefur farið misvel í fólk.Ryanair

Bólusetningar hófust í Bretlandi þann 8. desember síðastliðinn, en á sama tíma hefur smitum farið fjölgandi og tilkynnti Boris Johnson forsætisráðherra í gær að útgöngubann yrði í gildi fram í febrúar. Þá hefur nýtt afbrigði kórónuveirunnar einnig gert illt verra, en það er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði.

Kvartanirnar telja hátt í tvö þúsund og hefur formleg rannsókn verið hafin samkvæmt CNN. Talsmaður stofnunarinnar segir að mörgum hafi þótt auglýsingaherferðin gefa til kynna að faraldrinum yrði lokið í vor og ferðatakmörkunum aflétt sömuleiðis, á sama tíma og staðan væri grafalvarleg í Bretlandi.


Tengdar fréttir

Útgöngubann á Englandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í kvöld um útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins í Englandi. Í ávarpi sem hann flutti í kvöld sagði hann útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar, sem herjað hefur á Bretlandseyjar og er talið 50 til 70 prósent meira smitandi en flest önnur afbrigði, vera áhyggjuefni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×