Handbolti

Spurði sig fyrst hvar eyjarnar væru en er nú var um sig

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason tók við Þýskalandi fyrir tæpu ári síðan og er á leið með liðið á HM.
Alfreð Gíslason tók við Þýskalandi fyrir tæpu ári síðan og er á leið með liðið á HM. Getty/Mario Hommes

Alfreð Gíslason býr lærisveina sína í þýska landsliðinu undir snúna rimmu við nýliða á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi 17. janúar.

Grænhöfðaeyjar eiga í fyrsta sinn lið á HM í handbolta í ár og eru í riðli með Þjóðverjum, Úrúgvæjum og Ungverjum.

„Þegar við drógumst fyrst gegn þeim spurði ég sjálfan mig; „Hvar eru þær eiginlega?“,“ sagði Alfreð í viðtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung. Eftir að hafa horft á leiki með liði Grænhöfðaeyja segir hann hins vegar ástæðu til að hafa varann á:

„Þeir spila allir í spænsku eða portúgölsku deildunum og eru sterkir íþróttamenn. Ef við leyfum þeim að sækja á okkur þá lendum við í vandræðum. Við verðum að vera á tánum,“ sagði Alfreð.

Um 540.000 manns búa á Grænhöfðaeyjum sem eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi, við vesturströnd Afríku. Grænhöfðaeyjar eru einn af sjö fulltrúum Afríku á HM í ár en þar leika nú í fyrsta sinn 32 þjóðir. 

Grænhöfðaeyjar unnu sig inn á HM með dramatískum hætti þegar liðið vann Kongó 32-30 í framlengdum leik á Afríkumótinu fyrir ári síðan, sem liðið fylgdi svo eftir með því að ná 5. sæti með sigri á Marokkó, 37-28.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×