Skoðun

Sérskólar

Ágúst Kristmanns skrifar
Í umræðunni um Klettaskóla tala yfirvöld fjálglega um skóla fyrir alla, mannréttindi og fjölbreytt samfélag en minnast aldrei einu orði á hvernig þeim börnum líður sem eru neydd til að ganga í almennan skóla.

Annaðhvort vilja yfirvöld ekki horfast í augu við að börnum líður illa, eru einmana og döpur vegna pólitískrar stefnu þeirra, eða þeim er alveg sama.

Yfirvöld segjast vera að fara að vilja foreldra þegar þau loka sérskólanum fyrir hópi þroskahamlaðra barna. Ef það er rétt hljóta það að vera skrýtnir foreldrar sem finnst í lagi að börnum líði illa í skólanum sínum. Flestir foreldrar vilja áreiðanlega fá að meta sjálfir hvað sé best fyrir börnin sín og hafa val um hvort þroskaskert barn þeirra stundi nám í almennum skóla eða sérskóla.

Foreldrar hafa, frá því árið 2008, barist fyrir því að fá áfram að hafa þetta val. Undirskriftalistar, bænaskjöl og greinar hafa verið sendar til yfirvalda, fjöldi greina skrifaður í blöð og fjallað hefur verið um málið í fjölmiðlum. Vilji foreldra ætti því að vera skýr. Þeir vilja hafa val.

Hingað til hafa yfirvöld svarað óskum foreldra með útúrsnúningum og rangfærslum en forðast að ræða það sem skiptir mestu máli: lífshamingju barnanna sem um ræðir.

Yfirvöld hafa gert stefnuna um skóla án aðgreiningar að aðskilnaðarstefnu þar sem börn með þroskahömlun eru aðskilin frá jafningjum sínum og þeim gert að ganga í skóla þar sem þau eru meira og minna aðgreind frá öðrum nemendum. Og þetta kalla þau mannréttindi.

Foreldrum sem neitað er um skólavist fyrir börn sín í Klettaskóla geta kært neitunina til mennta-og menningarmálaráðuneytisins. Foreldrum er einnig velkomið að hafa samband við foreldra, til dæmis á fésbókarsíðunni „sérskóli“ eða sent mér póst á agust.kristmanns@gmail.com.




Skoðun

Sjá meira


×