Handbolti

Sandra: Gaman að taka þetta skref á eigin forsendum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sandra Erlingsdóttir skoraði sex mörk og var markahæst Valskvenna ásamt Díönu Dögg Magnúsdóttur.
Sandra Erlingsdóttir skoraði sex mörk og var markahæst Valskvenna ásamt Díönu Dögg Magnúsdóttur. vísir/daníel þór

Sandra Erlingsdóttir er á leið til Danmerkur til þess að spila með Álaborg. Þetta var staðfest í morgun en hún segir að þetta hafi komið upp fyrir um tveimur vikum.

Það stefndi allt í að Sandra myndi spila með uppeldisfélaginu, ÍBV, í vetur eftir að hafa leikið með Val undanfarin ár en það breyttist snarlega.

„Þetta kom upp fyrir tveimur vikum. Ég var með riftunarákvæði í samningnum til 1. maí hjá ÍBV svo maður þurfi að ákveða sig frekar fljótt,“ sagði Sandra við Svövu Kristínu í Sportpakkanum í kvöld.

„Ég var orðinn sjúklega spennt að spila með ÍBV svo það er leiðinlegt að þetta gerist svona en ég er 22 ára svo ég get alltaf komið heim aftur.“

Álaborg leikur í B-deildinni á næstu leiktíð eftir að hafa fallið um deild eftir að hafa verið í neðsta sæti dönsku deildarinnar er allt var blásið af vegna kórónuveirunnar.

„Það er að koma nýr þjálfari sem mér líst mjög vel á og nokkrir nýjir leikmenn. Mér heyrist að þær séu hungraðar að komast upp aftur og þær hafa verið svekktar að falla á þessum forsendum.“

Sandra hefur áður leikið í bæði Austurríki og Þýskalandi en það var þegar faðir hennar, Erlingur Richardsson, var að þjálfa í þeim löndum.

„Ég var kjúlli sem fékk að vera með þegar pabbi var að þjálfa í Þýskalandi svo þetta er gaman að taka þetta skref á sínum eigin forsendum,“ sagði Sandra.

Klippa: Sportpakkinn - Sandra til Danmerkur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×