Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að samkomubanni vegna útbreiðslu kórónuveiru hér á landi verði aflétt mánudaginn 4. maí.
Þórólfur tilkynnti á upplýsingafundi almannavarna í gær að hann myndi leggja til að samkomubannið myndi gilda út apríl.
„Við viljum bara að þetta nái fram yfir helgina. Okkur finnst það heppilegra,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis.
1. maí ber upp á föstudeginum en eðli máls samkvæmt verða engar kröfugöngur á meðan samkomubann er ríkjandi. Það takmarkast í dag við tuttugu á höfuðborgarsvæðinu en tíu í Vestmannaeyjum og fimm á norðanverðum Vestfjörðum.
Þórólfur hefur sagt ljóst að samkomubanni verði ekki aflétt nema hægt og í skrefum. Kjartan tekur undir það. Allt velti þetta á stöðu faraldursins á hverjum tíma.
Ríkisstjórn fundar á morgun og má reikna með því að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynni tillöguna fyrir ráðherrunum.