Erlent

Hún SKAL grýtt í hel

Óli Tynes skrifar

Sakine Ashtiani er 43 ára gömul ekkja og tveggja barna móðir. Hún var árið 2006 dæmd til að vera húðstrýkt fyrir að hafa stundað kynlíf utan hjónabands með tveim karlmönnum. Hún var dæmd til að vera pískuð 99 högg.

Síðar það ár var hún einnig sakfelld fyrir framhjáhald og dæmd til dauða. Hún hafði þá dregið fyrri játningu til baka og sagðist hafa verið þvinguð til hennar. Samkvæmt dóminum skyldi hún engu að síður grýtt í hel.

Morðákæra

Eftir hávær mótmæli alþjóða samfélagsins afléttu Íranar dauðadóminum í síðasta mánuði en þó aðeins tímabundið.

Fyrr í þessum mánuði var svo tilkynnt að Ashtiani hefði einnig verið ákærð fyrir morð á eiginmanni sínum. Því hafði ekki verið haldið fram áður að eiginmaðurinn hefði yfirleitt verið myrtur.

Í gær var svo birt myndband í Íranska sjónvarpinu sem á að vera til sönnunar um játningu hennar.

Konan á myndbandinu er óþekkjanleg þar sem andlit hennar er falið. Rödd hennar heyrist ekki heldur þar sem það er önnur kona sem talar fyrir hana.

Drepum manninn þinn

Konan segir að hún hafi náð símsambandi við mann árið 2005. Hann hafi gabbað sig með máli sínu.

Hann hafi sagt; „Drepum manninn þinn. Ég gat ekki trúað því að það ætti að drepa manninn minn. Ég hélt að hann væri að grínast. Seinna komst ég að því að það var atvinna hans að drepa fólk."

Síðar í játningunni segir konan að þessi ónafngreindi maður hafi komið á heimili hennar með raftæki, víra og hanska. Hann hafi tengt vírana við mann hennar og drepið hann með raflosti meðan hún horfði á.

Lögfræðingurinn flúinn

Í játningunni gagnrýnir þessi kona einnig lögmann sinn fyrir að gera mál hennar opinbert og vekja alþjóðlega athygli á því.

Lögmaðurinn hefur þegar flúið land og beðið um hæli í Noregi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×