Viðskipti innlent

Íslensk verðbréf taka við rekstri og vörslu sjóða Rekstrarfélags SPRON hf

Sævar Helgason
Sævar Helgason
Bráðabirgðastjórn SPRON hefur gert samkomulag við Íslensk verðbréf (ÍV) um að taka að sér þjónustu á sviði vörslu og eignastýringar við viðskiptavini sem áður voru hjá SPRON og SPRON Verðbréfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum. Þá segir að samhliða því hafi verið samið um Rekstrarfélag verðbréfasjóða taki við rekstri sjóða sem áður voru starfræktir af Rekstarfélagi SPRON hf. Markmið samkomulagsins, sem þegar hefur tekið gildi, er að koma þjónustu við viðskiptavini SPRON og SPRON Verðbréfa í eðlilegt horf sem fyrst.

„Þessi samningur er mjög þýðingarmikill bæði fyrir viðskiptavini SPRON og Íslensk verðbréf sem hafa yfir 20 ára reynslu á sviði eignastýringar. Við tökumst á við þetta verkefni af fagmennsku og viljum láta viðskiptavini SPRON finna frá upphafi að fjármunir þeirra eru komnir í örugga vörslu og stýringu hjá okkur," segir Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa

Flutningur gagna og önnur undirbúningsvinna stendur nú yfir og verður hraðað eins og kostur er. Stefnt er að því að opna Áskriftarsjóð ríkisverðbréfa og innlenda hlutabréfasjóði síðar í þessari viku.. Viðskiptavinir sjóða Rekstrarfélags SPRON geta snúið sér til Íslenskra verðbréfa og fengið þar nánari upplýsingar, þær er jafnframt að finna á heimasíðu ÍV.

Þjónusta við viðskiptavini í vörslu og eignastýringu SPRON Verðbréfa færist til Íslenskra verðbréfa og geta viðskiptavinir í framhaldinu nálgast yfirlit, sótt ráðgjöf og fengið aðra almenna þjónustu á sviði eignastýringar og vörslu hjá Íslenskum verðbréfum.

„Að vandlega athuguðu máli og eftir viðræður við fleiri aðila, sem teljast hæfir til að taka að sér þetta verkefni, var ákveðið að ganga til samninga við Íslensk verðbréf um þjónustu og umsýslu eigna sem tengjast sjóðum Rekstrarfélags SPRON hf. og eignastýringu SPRON Verðbréfa. Íslensk verðbréf hafa áratuga reynslu á þessu sviði og við treystum þeim til að veita viðskiptavinum SPRON trausta þjónustu," segir formaður bráðabirgðastjórnar SPRON.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×