Innlent

Mánaðarfangelsi fyrir að berja mann með billjarðkjuða

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að slá annan mann með billjarðkjuða í höfuðið þannig að fórnarlambið hlaut skurð á ennið.

Atvikið átti sér stað á veitingastað á Hverfisgötu sumarið 2006. Eftir því sem fram kemur í dómnum var sá sem ráðist var á að rukka annan mann um skuld. Skuldarinn brást illa við því og kallaði til félaga sinn sem lumbraði á innheimtumanninum með kjuðanum.

Maðurinn neitaði sök en út frá framburði vitna og fórnarlambsins taldi dómurinn sannað að hann hefði gerst sekur um líkamsárás. Árásarmaðurinn á að baki langan sakaferil og var refsing hans nú hegningarauki við fyrri dóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×