Erlent

Sjö kirkjugestir myrtir

Kristnir koptar í Egyptalandi segjast lengi hafa mátt þola mismunun og áreitni.fréttablaðið/AP
Kristnir koptar í Egyptalandi segjast lengi hafa mátt þola mismunun og áreitni.fréttablaðið/AP

Sjö manns létu lífið þegar þrír vopnaðir menn gerðu í fyrrinótt árás á koptíska kirkju í bænum Nag Hammadí í Egyptalandi.

Mennirnir biðu fyrir utan kirkjuna í bifreið og hófu skothríð á mannfjöldann sem streymdi út úr kirkjunni að miðnæturmessu lokinni. Þetta var jólamessa, því jóladagur koptísku kirkjunnar var haldinn í gær.

Óeirðir brutust út síðar í gær fyrir utan sjúkrahús í bænum þar sem lík hinna látnu voru geymd.

Ættingjar hinna látnu kröfðust þess að fá líkin afhent tafarlaust til greftrunar. Sumir þeirra brutu rúður á sjúkrabifreiðum og beitti lögreglan táragasi til þess að dreifa mannfjöldanum.

Talið var að afhending líkanna gæti dregist á langinn af ótta við að útfarirnar verði vettvangur fleiri ofbeldisverka.

Lögregla segi höfuðpaur árásanna vera múslima, en hann hefur ekki verið handtekinn enn. Talið er að árásin hafi verið í hefndarskyni fyrir nauðgun tólf ára gamallar stúlku nýverið. Stúlkan er múslimi en árásarmaðurinn kristinn.

Messunni lauk klukkutíma fyrr en venja er til vegna hótana sem borist höfðu síðustu dagana fyrir jól.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×