Skoðun

Vonlaus veiðiregla

Fiskveiðistjórnun - Sigurjón Þórðarson alþingismaður Frjálslynda flokksins Því verður ekki á móti mælt að þorskafli á Íslandsmiðum hefur dregist gríðarlega saman síðan tekið var upp kvótakerfi til þess að stjórna fiskveiðum á Íslandsmiðum. Þorksveiðiráðgjöfin fyrir næsta ár gefur þvi miður ekki von um bjartsýni þar sem þorskaflinn á næsta ári var ákveðinn 209 þúsund tonn sem er rúmlega helmingi minni afli en stefnt var að með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Stofnvistfræðingur Landsambands Íslenskra Útvegsmanna virðist deila þessum vonbrigðum með mér þar sem hann lýsir því yfir í nýjasta fréttablaði samtakanna, Útveginum, að ráðgjöf um þorskafla á komandi fiskveiðiári hafi óneitanlega valdið miklum vonbrigðum. Allar tilraunir pólitískt skipaðara reiknimeistara til þess að búa til einhverja allsherjar aflareglu til þess að byggja upp þorskstofninn hafa mistekist hrapalega. Árið 1992 var þorskaflinn 309 þúsund tonn en það er einmitt árið sem vinnuhópur Hafrannsóknastofnunar og Þjóðhagsstofnunar hóf vinnu við gerð aflareglu sem hafði það að markmiði að efla þorskstofninn. Aflaregla er föst regla sem ákveður hve mikið á að veiða úr þorskstofninum. Reglan sem hefur gilt hér undanfarin ár er að það skuli veiða 25 % af áætluðum veiðistofni, 4 ára og eldri þorski. Hver er "árangurinn" af aflareglunni nú 12 árum síðar? Aflinn á komandi fiskveiðiári 2004-2005 mun verða 209 þúsund tonn eða 100 þúsund tonna minni afli en þegar reiknimeistararnir hófu vinnu sína. Dæma eigin verk Sjávarútvegsráðherra skipaði í mars 2001 nefnd til þess að meta "árangur" af notkun aflareglunnar við stjórn fiskveiða. Eflaust hefur árangursleysið rekið ráðherrann til þess að gera umrædda úttekt. Það sem vekur sérstaka furðu er að sjávarútvegsráðherrann skipaði nánast sömu mennina í nefnd til að gera úttekt á aflareglunni og þá sem bjuggu regluna til. Af þeim 8 sem sátu í nefndinni sem gerði úttektina eru nánast allir höfundar reglunnar ef frá eru taldir Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar sem kom inn fyrir fráfarandi forstjóra stofnunarinnar og síðan Sævar Gunnarsson forseti SSÍ. Nefndin felldi dóm í eigin máli og skilaði af sér áfangaskýrslu í maí 2002 þar sem kemur fram að árangur af beitingu aflareglunnar hafi verið umtalsverður og þann 18. júní s.l. skila höfundar aflareglunnar nýrri skýrslu þar sem reynt er að bera í bætifláka fyrir slæman afrakstur aflareglunnar. Helsta málsvörnin er að vegna ofmats á þorskstofninum hafi í raun verið tekið hærra hlutfall af veiðistofninum en ætlað var og að upphaflega hafi verið ráðlagt að taka 22 % í stað 25% af veiðistofni. Ein megin forsenda reiknimeistaranna er að stór hrygningarstofn gefi af sér mikla nýliðun. Nýliðun er fjöldi ungra þorska sem bætist við veiðistofninn og er hann skilgreindur í skýrslum Hafrannsóknarstofnunar sem fjöldi 3 ára þorska. Ef skoðað er meðfylgjandi línurit yfir stærð hrygningarstofns (brotnar línur) og nýliðun (heil lína) þá er ekki með nokkru móti hægt að ætla að það sé fylgni með stórum hrygningarstofni og mikilli nýliðun. Miklu nær er að lesa út úr línuritinu að það sé öfugt samband á milli hrygningarstofns og nýliðunar þ.e. þegar hrygningstofn er lítill þá komist fleiri seiði á legg. Auðvelt er að skýra það samband líffræðilega á þann hátt að þegar hrygningarstofn er lítill þá er meira rými fyrir unga einstaklinga að vaxa upp þar sem fæðuframboð ætti að vera meira og minna afrán af völdum eldri þorsks. Líffræðileg della Að framan var sýnt fram á að sjálf forsendan fyrir aflareglunni sem ákvarðar heildarafla þorsks á Íslandsmiðum, hvíldi á vægast sagt mjög veikum grunni en það eru fleiri reiknikúnstir sem vægast sagt orka mjög tvímælis. Eitt af því sem vekur sérstaka furðu er að aflareglan segir til um að það eigi ekki að veiða meira en 25 % af 4 ára og eldri þorski en nú er það svo að einungis lítill hluti 4 og 5 ára þorsks er kynþroska. Þess ber þó að geta að á seinni árum hefur hærra hlutfall orðið kynþroska samfara hlýrri sjó. Líffræðilega er það vægast sagt sérkennilegt að vera með 4 og 5 ára fisk inn í útreikningum á sömu forsendum og ef um eldri hrygningarfisk væri að ræða. Sumt í fiskveiðistjórnunarreglum á ekki við nein líffræðileg rök að styðjast og vil ég þá sérstaklega benda á 30 þúsund sveiflujöfnunarreglu sem gengur út á að ekki megi auka eða minnka þorskaflann um meira en 30 þúsund tonn þó svo að aflareglan segi til um annað. Ég hef ítrekað spurt sjávarútvegsráðherra á Alþingi út í þessa óútskýrðu reglu og óskað eftir einhverjum rökstuðningi við hana. Svör ráðherra hafa verið vægast sagt óskýr og þokukennd en þó vísaði hann í skýrslu vinnuhóps um hagkvæma nýtingu fiskistofna. Við lestur þeirrar skýrslu er ekki að sjá nein líffræðileg rök sem gefa til kynna að það skuli vera einhver 30 þúsund tonna sveiflujöfnunarregla. Aflinn árið 2023 Það getur verið erfitt fyrir veðurfræðinga með öll sín tölvulíkön og gögn um veðurfar sem spanna áratugi að spá með einhverri nákvæmni um veðrið langt fram í tímann. Aldrei hef ég heyrt um veðurfræðing sem treystir sér ekki til að spá fyrir um veðrið 4 daga fram í tímann en telji sig hins vegar fullfæran um að spá fyrir um veðrið 4 vikur fram í tímann með mikilli nákvæmni. Ítrekað hefur komið í ljós að oftar en ekki hafa spádómar um þróun þorskstofnsins frá ári til árs brugðist og þess vegna er ótrúlegt að sjá útreikninga nefndar um langtímanýtingu fiskistofna um aflabrögð árið 2023. Margar spurningar vakna við lestur skýrslna nefndar um langtímanýtingu fiskistofna en þær eru undarlegur hrærigrautur fiskifræði og þjóðhagfræði. Ég hef sett mig í samband við formann nefndarinnar Friðrik Má Baldursson til þess að fá nánari skýringar á fjölmörgum líffræðilegum spurningum sem vakna við lestur skýrslunnar en því miður hefur hann ekki haft tök á að ræða við mig um þær: a) rökstuðning fyrir 30 þúsund tonna sveiflujöfnunarreglunni; b) hvort eitthvert vit sé í að spá fyrir um afla 20 ár fram í tímann ef ekki er hægt að spá um afla 2 ár fram í tímann og c) hver séu mælanleg áhrif stórs hrygningarstofns á nýliðun. Þess ber að geta að Friðrik Már Baldursson er einn þeirra sem gerði aflaregluna, gerði síðan úttekt á henni og er jafnframt formaður stjórnar Hafrannsóknarstofnunar. Nauðsynlegt er að efla hafrannsóknir og breyta áherslum rannsókna og losa þau beinu tök sem hagsmumaaðilar og stjórnvöld hafa á hafrannsóknum. Mikil áhersla er nú lögð á að telja fisk á Íslandsmiðum og framreikna út frá reiknilíkönum jafnvel áratugi fram í tímann út frá hæpnum forsendum. Það þarf einfaldlega að losa Hafrannsóknarstofnun undan ráðgjafahlutverkinu svo stofnunin geti beint rannsóknunum á stofnmælingunum inn á aðrar brautir og farið að draga ályktanir óháð einhverri veiðiráðgjöf frá ári til árs. Staðan nú er sú að stofnunin er föst í að vera sífellt að réttlæta gallaða fiskveiðiráðgjöf fyrri ára.



Skoðun

Sjá meira


×