Viðskipti innlent

Framkvæmdir hefjast við vatnsverksmiðjuna á Rifi

komið með byggingarefni Efni í byggingu vatnsverksmiðju Iceland Glacier Products á Rifi á Snæfellsnesi hefur legið við hafnarbakkann í tæpt ár.mynd/Snæfellsbær
komið með byggingarefni Efni í byggingu vatnsverksmiðju Iceland Glacier Products á Rifi á Snæfellsnesi hefur legið við hafnarbakkann í tæpt ár.mynd/Snæfellsbær

Umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar hefur samþykkt teikningar að sjö þúsund fermetra vatnsátöppunarverksmiðju Iceland Glacier Products á Rifi á Snæfellsnesi. Fyrirtækið, sem er í eigu hollenska athafnamannsins Otto Spork, framleiðir átappað vatn á flöskum undir merkjum Iceland Glacier Water.

Fyrirhugað var að byggingin yrði tíu þúsund fermetrar að flatarmáli og barst byggingarefni í hana til Rifs fyrir um tveimur árum. Hún stóðst ekki innlendar reglugerðir og lá byggingarefnið á hafnarbakkanum í ár. Forsvarsmenn fyrirtækisins breyttu því byggingunni. Stefnt er á að framkvæmdir við byggingu vatnsverksmiðjunnar hefjist í næsta mánuði og hefur tilboðum í hana verið skilað. Reiknað er með að framleiðsla verði komin á skrið árið 2011.

Áætlað er að á bilinu þrjátíu til fjörutíu manns muni vinna við framleiðsluna. Þeir bæjarbúar sem Fréttablaðið hefur rætt við eru vongóðir um að verkið hefjist sem fyrst. Ekki hefur náðst í Spork í tengslum við vinnslu fréttarinnar.

Rúmt ár er síðan Snæfellsbær tengdi vatnslögn fyrir Iceland Glacier Products á lindarsvæði Snæfellsbæjar í Fossárdal og hefur þar einn starfsmaður á vegum fyrirtækisins tappað því á blöðrugáma í bráðabirgðahúsnæði. Gámarnir eru fluttir suður til Reykjavíkur. Vífilfell sá um átöppun á nokkrar flöskur fyrir fyrirtækið, sem notaðar voru í kynningarskyni í fyrravor.

Ekki liggur fyrir hvort vatnið er flutt út í flöskum eða blöðrugámum eða hvoru tveggja.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×