Viðskipti innlent

Í skoðun að rýmka lánskjör bankanna

Björgvin Guðmundsson og Ingimar Karl Helgason skrifar
Seðlabankinn
Seðlabankinn

„Við höfum hugað að því að bankarnir fái rýmri kjör hjá Seðlabankanum. Ekki í neinum stórum stíl þó. Við höfum átt náin samtöl við forystumenn bankanna, en ekki er búið að ljúka þeim öllum," sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri í samtali við Markaðinn í gær. Hann vildi ekki greina nánar frá samskiptum sínum við forystumenn bankanna, en þeir funduðu í Seðlabankanum í fyrradag.

Bolli Bollason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, kallaði í gær saman samráðshóp til að fjalla um fjármálastöðugleika í landinu. Krónan hélt áfram að hríðfalla gagnvart erlendum gjaldmiðlum fram eftir degi. Margir sem Markaðurinn talaði við sögðu að opinberir aðilar yrðu að grípa inn í núverandi aðstæður.

Bolli segir að farið hafi verið yfir stöðuna og þróun undanfarinna daga. Ýmsar hugmyndir séu ræddar á þessum fundum, sem haldnir séu reglulega. Hópnum er ætlað að vera ráðgefandi en taki ekki ákvarðanir um aðgerðir. Það sé á forræði ráðuneyta eða stofnana. Í hópnum eiga sæti auk Bolla ráðuneytisstjórar fjármála- og viðskiptaráðuneytisins, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans.

Geir Haarde forsætisráðherra sló á allar hugmyndir um aðkomu ríkisvaldsins við þessar aðstæður á fjármálamörkuðum eftir ríkisstjórnarfund í gærmorgun. Hann sagði að gengislækkun krónunnar væri ekki komin á það stig að það kallaði á sérstakar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Hópur fulltrúa norrænna seðlabanka, sem eiga að vinna saman að viðbrögðum við fjármálaáfalli í banka sem starfar í fleiru en einu norrænu ríki, kom saman fyrir viku. Ef fjármálaáföll eiga sér stað breytist þessi hópur í viðbragðshóp óski einhver seðlabanki eftir því. Tryggvi Pálsson, fulltrúi Seðlabanka Íslands í hópnum, segir þá stöðu ekki uppi.

Davíð Oddsson segir að Seðlabankinn sjái ekki að gengislækkun krónunar undanfarið hafi verið fyrir atbeina erlendra aðila. Viðskiptabankarnir hafi sankað að sér erlendum gjaldeyri til að verja eiginfjárstoð sína. „Við vorum hlynntir því, því við vildum ekki að eiginfjárstoðin veiktist," segir seðlabankastjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×