Viðskipti erlent

Fjögurra milljarða króna björgunarpakki til danskra fjölmiðla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölmiðlar í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku munu geta sótt um ríkisaðstoð vegna auglýsingataps á tímum kórónuveirunnar.
Fjölmiðlar í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku munu geta sótt um ríkisaðstoð vegna auglýsingataps á tímum kórónuveirunnar. Olga Iacovlenco

Pólitískur meirihluti hefur náðst um björgunarpakka í Danmörku til fjölmiðla þar í landi. Áætlaður kostnaður ríkisins svarar til um 3,7 milljarða íslenskra króna. Um er að ræða greiðslur vegna hruns í auglýsingatekjum sem má rekja beint til kórónuveirunnar.

Aðgerðirnar ná til dagblaða, vefmiðla, vikublaða, útvarpsstöðva, tímarita og fagblaða. Séu miðlarnir skráðir á vef fjölmiðlanefndar er hægt að sækja um bætur. Kórónuveirufaraldurinn og tilheyrandi samkomubönn hafa mjög mikil áhrif á alls kyns rekstur. Lítil umsvif gefur ekki tilefni til að auglýsa starfsemi sína og finna fjölmiðlar um heim allan fyrir áhrifunum.

Um er að ræða bætur að hámarki 60 prósent af tekjumissi fjölmiðils hafi niðursveiflan vegna kórónuveirunnar verið 30-50 prósent. Hafi niðursveiflan verið 50-100 prósent bætir ríkið 80 prósent tapsins. Tímabilið sem björgunarpakkinn nær til er frá 9. mars til 8. júní.

Jesper Rosener, formaður Blaðamannafélags Danmerkur, er ánægður með niðurstöðuna. Viðræður félagsins við stjórnvöld hafa verið eldfimar að því er fram kemur í frétt DR.

Rosener segir blaðamenn og þeirra störf aldrei hafa verið mikilvægari, að upplýsa borgara um kórónuveirufaraldurinn, ástæður hans og afdrif bæði í heimalandinu og erlendis. Blaðamenn geti nú hætt að óttast um störf sín og sinnt þeim af kappi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×