Skoðun

Fórnum ekki meiri áhrifum fyrir minni

Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar
Dragi Ísland aðildarumsóknina að ESB til baka glötum við aðgengi að milliliðalausum samskiptum við löggjafarvald Evrópusambandsins sem nýst gætu Íslandi í hagsmunagæslu gagnvart sambandinu. Nýleg greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Umbætur á löggjöf á fjármálamarkaði, staðfestir þetta.

Í greinargerðinni, sem kom út í september 2014, kemur fram að með gildistöku nýs sáttmála Evrópusambandsins árið 2009 hafi aðkoma Evrópuþingsins að löggjafarvinnu verið aukin til muna. Evrópsk löggjöf mótist í flestum tilfellum í umræðum innan, og svo milli, ráðherraráðs ESB og þingsins, eftir að þessir aðilar hafa fengið tillögu að nýrri löggjöf frá framkvæmdastjórn sambandsins. Frá því völd Evrópuþingsins jukust er æ algengara að verulegar breytingar verði á löggjöfinni á lokametrunum, þ.e.a.s í viðræðum ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Í greinargerðinni segir ennfremur: „Aðkoma EES/EFTA-ríkjanna að þessu ferli er engin. Því er erfitt fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein að hafa áhrif á endanlega útgáfu löggjafarinnar eða hefja tímanlega undirbúning fyrir innleiðingu hennar.“ Í ljósi þessa væri glapræði að draga aðildarumsóknina að ESB til baka en staða Íslands sem umsóknarríkis veitir okkur beinan aðgang að löggjafar- og framkvæmdavaldi ESB.

Í sterkari stöðu

Þegar Ísland sótti um aðild að ESB var komið á fót sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópuþingsins. Í nefndinni eiga sæti níu alþingismenn og jafnmargir Evrópuþingmenn auk þess sem fulltrúar ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar sambandsins sækja alla jafna fundi nefndarinnar. Með því að afturkalla umsóknina væru tækifæri Íslands til að eiga í milliliðalausum samskiptum við Evrópuþingmenn og fulltrúa ráðherraráðsins (löggjafarvaldið) og framkvæmdastjórnarinnar (framkvæmdavaldið) á vettvangi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB úr sögunni. Að vera umsóknarríki setur Ísland nefnilega í sterkari stöðu gagnvart ESB en EES-samningurinn einn og sér getur gert. Það veitir Íslandi fleiri og öflugri tækifæri til að láta sinn málstað heyrast en EES getur nokkurn tímann veitt.

Það er á ábyrgð íslenskra stjórnmálamanna að hagnýta stöðu okkar sem umsóknarríki til að efla hagsmunagæslu Íslands í EES-samstarfinu. Það er holur hljómur í því að stefna að auknum áhrifum Íslands á löggjöf ESB en draga á sama tíma úr getu landsins til að gæta þessara hagsmuna sinna.

Engum hagsmunum er fórnað með því að vera umsóknarríki. Aftur á móti fórnum við miklum hagsmunum með því að draga umsóknina til baka og missa þannig stöðu umsóknarríkis. Það er í raun ógerningur að sjá hvernig það að draga aðildarumsóknina til baka getur á nokkurn hátt orðið íslensku samfélagi til framdráttar. Við hljótum því að spyrja okkur, hvað býr að baki þeirri ákvörðun ef af henni verður?




Skoðun

Sjá meira


×