Skoðun

Vefkerfi sem skiptir sköpum

Regína Ásvaldsdóttir og Óskar J. Sandholt skrifa

Síðastliðinn föstudag, þann 27. mars, var kerfið á bak við fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar valið vefkerfi ársins 2019 á íslensku vefverðlaununum. Verðlaunin eru haldin árlega af SVEF, sem eru fagsamtök þeirra sem starfa að vefmálum á Íslandi. Verðlaunin voru með öðru sniði þetta árið, en í stað þess að koma saman í raunheimum var sent út beint streymi úr stofum fjölda fólks þar sem sagt var frá sigurvegurum ársins.

Í umsögn dómnefndar um vefkerfið Fjárhagsaðstoð Reykjavíkur segir: „Vefkerfi ársins er mikil nýsköpun sem er í senn aðgengileg og mannleg. Metnaðurinn á bakvið verkefnið skín í gegn, en þetta er vefkerfi sem skiptir sköpum fyrir notendur þess. Flæðið í gegnum kerfið er einfalt og notendavænt. Frábærlega vel útfærð lausn.“

Rafræn fjárhagsaðstoð er fyrsti stóri verkferillinn hjá Reykjavíkurborg sem er rafvæddur með þessum hætti. Starfsfólk velferðarsviðs og þjónustu- og nýsköpunarsviðs vann með veffyrirtækinu Kolibri í fjögurra mánaða lotu, með sjónarmið notendamiðaðrar hönnunar að leiðarljósi. Unnið var með sífellda endurgjöf, en bæði starfsfólk sem vinnur dagsdaglega við afgreiðslu fjárhagsaðstoðar sem og notendur þjónustunnar tóku virkan þátt í prófunum á tækninni.

Á þeim tiltölulega stutta tíma, sem liðinn er frá því að opnað var fyrir rafrænar umsóknir

um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavík, hefur þeim fjölgað hratt sem nýta sér ferlið. Umsóknarferlið er afar þægilegt og einfalt fyrir umsækjandann, sem upplifir hlýlegt viðmót og virðingu í hverju skrefi. Fólk fær greinargóðar upplýsingar á hverjum tíma um sína stöðu í ferlinu. Þegar vefkerfið var opnað fyrir tæpu ári, í apríl 2019, sóttu 33 eða 2.2% umsækjenda um á rafrænan máta. Nú í lok mars voru þeir orðnir 900 eða um 66% umsækjenda.

Verkefnið er þegar orðið að fyrirmynd að áframhaldandi rafvæðingu ferla á vegum þjónustustofnana Reykjavíkurborgar og við erum stolt og ánægð með hvernig tókst til. Það er okkar skylda og hlutverk að vinna sífellt að því að bæta þjónustu við íbúa borgarinnar og rafvæðing umsókna og ferla er þar í lykilhlutverki. Viðtökurnar sem þetta vefkerfi hefur fengið hjá notendum og starfsfólki er okkur mikil hvatning til að feta áfram veg stafrænnar umbreytingar og þróun nýrra lausna fyrir borgarbúa.

Regína Ásvaldsdóttir er sviðsstjóri velferðarsviðs og Óskar J. Sandholt, er sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×