Innlent

Ótímabær gagnrýni á ritgerðarefni

Sverrir Þórisson starfsmaður námsmatsstofnunnar telur gagnrýni á ritgerðarefnið á samræmda prófinu í íslensku ótímabæra. Niðurstaða samræmdu prófanna hljóti að vera hinn eini sanni prófsteinn á það hvort efnið sé óviðeigandi eða ekki. Einnig telur hann undarlegt ef nemendur í 10.bekk eru ekki búnir að hugsa um styttingu námstíma til stúdentsprófs, þar sem mikill meirihluti nemenda ætli sér að fara í framhaldsskóla og hljóti því að hafa leitt hugann að efninu. Hvað varðar gagnrýni Margrétar Matthíasdóttur íslenskukennara í Hagaskóla, sem sagði ritgerðarefnið notað á efri stigum framhaldsskóla og þar með valmöguleika, þá gaf Sverrir lítið fyrir hana. Hann sagði kröfurnar sem gerðar eru í 10.bekk alls ekki þær sömu og á framhaldsskólastiginu. Þannig sé ósanngjarnt að bera saman þessi atriði, þar sem kröfurnar væru í raun aðalatriði. Að auki telur Sverrir það hollt fyrir krakka á þessum aldri að velta fyrir sér efni sem þessu, sem sé til þess fallið að virkja þau til gagnrýninnar hugsunar. Hún sé aldrei of mikið notuð í kennslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×