Innlent

Leiguskip losar um stífluna

Eimskip hefur kallað inn leiguskipið MS Rebekku til að losa um stíflu sem hefur myndast í innflutningi á amerískum bílum. Skipið hefur farið eina ferð með bíla frá Bandaríkjunum og svo hafa bílar verið sendir með öðrum félögum til Evrópu. Forsvarsmenn Eimskipa telja sig þar með hafa losað um stífluna. Í febrúar og mars var biðtíminn eftir bílum til landsins sex til átta vikur en nú fá kaupendur amerískra bíla í flestum tilfellum bílana til landsins innan mánaðar. "Við önnum þessu þokkalega núna. Við höfum verið að skoða ástandið og niðurstaðan hefur verið sú að bæta eigi ekki við öðru aukaskipi. Við erum að reyna að láta þessar ráðstafanir duga," segir Höskuldur H. Ólafsson, aðstoðarforstjóri Eimskipa. Eimskip og Atlantsskip flytja inn ameríska bíla með áætlunarsiglingum sínum, þar af sinnir Eimskip meirihlutanum en félagið hefur flutt um 120-130 bíla til landsins á viku upp á síðkastið. Búist er við að innflutningurinn dali á næstunni vegna hækkandi gengis og sumarlokana í verksmiðjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×