Lífið

Vann stærstu snjóbrettakeppni Svíþjóðar

Halldór fékk um 900.000 íslenskar krónur fyrir sigurinn í stærsta snjóbrettamóti Svíþjóðar.
Halldór fékk um 900.000 íslenskar krónur fyrir sigurinn í stærsta snjóbrettamóti Svíþjóðar.
„Þetta gekk vel," segir hógværi snjóbrettakappinn Halldór Helgason.

Hinn 19 ára gamli Halldór stóð uppi sem sigurvegari á Oxborn Session-snjóbrettamótinu í Tandålen í Svíþjóð í lok mars. Mótið er það sterkasta í Svíþjóð, en ásamt því að vinna aðalkeppnina fékk hann sérstök aukaverðlaun fyrir hæsta stökkið. Halldór fékk 50.000 sænskar krónur í sigurlaun, en það eru um 900.000 íslenskar krónur.

Þegar Fréttablaðið náði í Halldór var hann staddur í Svíþjóð, þar sem hann stundar nám. Hann hefur reyndar lítið getað sinnt náminu undanfarna mánuði þar sem hann hefur verið upptekinn við að ferðast um heiminn og slá í gegn í snjóbrettaíþróttinni. Hann vann gullverðlaun á X-Games fyrr á þessu ári, en það er stærsta snjóbrettamót heims.

Eru mót í Svíþjóð orðin of auðveld fyrir þig?

„(Hlær) Nei. Þetta er enn þá erfitt. Maður veit aldrei hvenær maður á góðan dag," segir Halldór. Hann er á leiðinni til Bandaríkjanna á næstunni þar sem hann ætlar að taka upp efni sem verður gefið út á snjóbrettamyndböndum. „Það er mikið að gerast. Ég er búinn að ferðast mikið og það er gaman. Ég er aldrei lengur en tvær vikur á sama stað."

Halldór er styrktur af ýmsum snjóbrettamerkjum, sem gera honum kleift að ferðast eins mikið og hann vill. „Ef það er góður snjór einhvers staðar get ég farið og tekið upp og látið þá borga," segir hann. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.