Viðskipti innlent

Vann sig úr uppvaskinu í stöðu forstöðumanns

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gísli Tryggvi Gíslason, nýr forstöðumaður stafrænnar tækni hjá Samkaupum.
Gísli Tryggvi Gíslason, nýr forstöðumaður stafrænnar tækni hjá Samkaupum. samkaup

Gísli Tryggvi Gíslason, sem starfað hefur nánast alla sína starfsævi hjá Samkaupum, hefur tekið við stöðu forstöðumanns starfrænnar tækni hjá fyrirtækinu. Hann hefur komið víða við hjá fyrirtækinu og segir framkvæmdastjóri Samkaupa það „hálf lygilegt“ hvað Gísli hefur unnið sig hratt upp hjá fyrirtækinu, allt frá því að hann tók við starfi uppvaskara í verslun Samkaup Úrvals á Akureyri árið 2002.

Til að mynda gegndi Gísli starfi markaðsstjóra Samkaupa frá árinu 2019 en einnig hefur hann verið verkefnastjóri netverslunar Nettó í rúm þrjú ár. Samhliða vinnu menntaði Gísli sig við Háskólann í Bifröst og lauk B.S. gráðu í viðskiptafræði.

Í tilkynningu Samkaupa vegna nýju stöðu Gísla innan fyrirtækisins er jafnframt tekið fram að hann sé giftur Söndru Kristinsdóttur, hjúkrunarfræðingi á Landspítalanum, og eiga þau saman tvö börn. 

Gísli kveðst spenntur fyrir nýja starfinu. „Stafræn tækni innan Samkaupa og í samfélaginu í kringum okkur á eftir að fara vaxandi á næstu árum og það er gaman að fá að vera í framlínunni í þeirri þróun. Íslendingar eru orðnir meðvitaðri um netverslun. Við erum búin að sjá mikinn vöxt undanfarin ár og eigum von á enn frekari vexti á næstu árum,” segir Gísli.

Haft er eftir framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa, Gunnari Agli Sigurðssyni, í fyrrnefndri tilkynningu að honum þyki hálf lygilegt hversu lengi Gísli hafi unnið hjá Samkaupum og náð að vinna sig hratt upp á sama tíma. „Ég á ekki von á öðru en að hann blómstri í þessari stöðu eins og hann hefur gert innan veggja fyrirtækisins síðustu 18 árin,” segir Gunnar Egill.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×