Körfubolti

Jón Axel ætlar í nýliðaval NBA-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson Wildcats á móti Rhode Island.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson Wildcats á móti Rhode Island. Getty/Anthony Nesmith

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson hefur ákveðið að skrá sig í nýliðavalið eins og hann gerði í fyrra.

Jón Axel staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið. „Já, ég er búinn að ákveða að fara í nýliðavalið þó eins og er sé allt í óvissu hérna þar sem allt er lokað. Fyrsta skrefið hjá mér er að fá mér umboðsmann, ég er með nokkra í sigtinu og á eft­ir að velja úr en geri það örugglega í þessari viku,“ sagði Jón Axel við Morgunblaðið.

Nýliðavalið fer fram í Barclays Center sem er heimahöll Brooklyn Nets liðsins í New York borg en það fer fram 25. júní næstkomandi.

Jón Axel dró sig út í fyrra áður en nýliðavalið fór fram og mátti því taka þátt í því í ár.

Jón Axel Guðmundsson fylgir því í fótspor Trygga Hlinasonar sem tók þátt í nýliðavalinu sumarið 2018 en var þá ekki valinn.

Jón Axel Guðmundsson er að klára sinn feril með Davidson-háskólanum en missti af síðustu leikjunum og síðustu úrslitakeppninni vegna kórónuveirunnar.

Á fjórum árum sínum með Davidson spilaði hann 128 leiki þar af 126 þeirra í byrjunarliði. Hann skoraði 1700 stig, tók 785 fráköst, gaf 567 stoðsendingar og stal 160 boltum. Jón Axel skoraði alls 218 þriggja stiga körfur fyrir Davidson.

Á lokaári sínu við skólann var Jón Axel með 14,5 stig, 7,1 frákast og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var efstur hjá liðinu í fráköstum, stoðsendingum og stolnum boltum auk þess að vera næststigahæstur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×