Viðskipti innlent

Opnað fyrir umsóknir um minnkað starfshlutfall

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/SigurjónÓlafsson

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um minnkað starfshlutfall á vef Vinnumálastofnunar. Sótt er um í gegnum mínar síður á heimasíðu stofnunarinnar. Launafólk fer inn á mínar síður atvinnuleitenda en atvinnurekendur á mínar síður atvinnurekanda. Nánar hér.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri VMS sagði í samtali við fréttastofu síðdegis í gær að allt kapp væri lagt á það innan Vinnumálastofnunar að ljúka nauðsynlegum undirbúningi fyrir rafrænar umsóknir um bætur á móti skertu starfshlutfalli samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti nýverið. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir en von er á að álag á vefinn geti verið mikið.

Samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 25 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu.

„Þetta geta verið tíu til tuttugu þúsund manns. Það er mikið spurt um þetta en við rennum alveg blint í sjóinn með hvað þetta verða margir,“ segir Unnur.

Stefnt sé að því að greiða fyrstu greiðslurnar hinn 31. mars. En miðað við hvað skammt sé til mánaðamóta gætu einhverjar greiðslur dregist inn í fyrstu viku apríl.

„Þetta veltur allt á því hvað atvinnurekendur eru duglegir að fara inn á mínar síður hjá okkur til að staðfesta breytt starfshlutfall hjá sínu fólki,“ segir Unnur.

Greiðslurnar muni síðan berast fólki um hver mánaðamót eins og önnur laun. Allar umsóknir muni gilda afturvirkt frá 15. mars síðast liðnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×