Gagnrýni

Feel Good á Netflix:  Þú ert nóg!

Heiðar Sumarliðason skrifar
Mae veit ekki hvernig hún á að vera.
Mae veit ekki hvernig hún á að vera.

Feel Good er glæný þáttaröð af Netflix sem fjallar um lesbíuna Mae (Mae Martin), kanadískan grínista sem er einskonar flóttamaður í London. Hún er að flýja foreldra sína, fortíðina, eiturlyfjafíkn og síðast en ekki síst, sjálfa sig. Hún er hálfpartinn heimilislaus og gistir á sófa mannsins sem rekur grínklúbbinn sem hún skemmtir á.

Georgina (Charlotte Ritchie) hefur komið nokkur kvöld í röð til að sjá Mae skemmta. Hún herðir sig upp í að tala við Mae, neistar fljúga, kossaflens og Mae er flutt inn til Georginu áður en þú getur blikkað. Það er þá sem sagan flækist og allur farangur þeirra beggja hellist út um allt. Þær eru báðar afkvæmi þeirrar brengluðu samfélagsgerðar sem hinn vestræni heimur býr við, þar sem fólk getur ekki fengið að vera eins og það vill. Þær eru úr þjóðfélagi þar sem fólk þarf sífellt að breyta sér til að passa inn í fyrirframgefið samfélagsmynstur, svo það hreinlega fái óheftan aðgang að þeim félagsskap sem samfélag manna er. Mae er svo lituð af ömurlegum grunn- og framhaldsskólaárum að hún veit ekki hvernig hún á að vera. George er ekkert síður tjóðruð af væntingum umhverfisins og á bágt með að koma út úr skápnum með samband sitt og Mae.

Gagnkynhneigðin er sífellt að þvælast fyrir Georginu, enda vilja allir sofa hjá henni.

Horfið á Feel Good!

Netflix hóf nýverið að birta lista yfir þá þætti sem mest er horft á hverju sinni. Oftast er þetta nýjasta efnið þeirra (og Friends, augljóslega). Það vakti athygli mína að Feel Good er ekki á listanum, á meðan mun verri þættir eru að fá mikið áhorf.

Skilaboð mín eru einföld: Hættið að horfa á helvítis Love is Blind og horfið á Feel Good!

Kannski er umfjöllunarefnið ástæðan fyrir því að þátturinn nær ekki meira áhorfi en raun ber vitni. Ef svo er, þá er það bagalegur vitnisburður um þessa þjóð sem byggir þetta einangraða land okkar. Eru virkilega enn svona margir þarna úti sem geta ekki horft á þátt um lesbískt ástarsamband? Svo margir að þeir kjósa frekar að horfa á heimildarþáttaröð um bandarískar klappstýrur?

Það er annaðhvort það eða Netflix hefur ekki tekist að gera þetta nægilega aðlaðandi við fyrstu sýn. Ég tek reyndar eftir því að Netflix hefur skipt um auglýsingamynd fyrir þáttinn inni á forsíðunni sinni, þannig að ég ætla að leyfa þjóð minni að njóta vafans og áætla að Feel Good verði kominn inn á topp 10 áður en vikan er úti.

Feel Good inniheldur einhvern sterkasta boðskap sem ég hef lengi séð í sjónvarpi, því þáttaröðin sýnir á svo skýran máta hvernig neikvæð afstaða samfélagsins gegn samkynhneigðum getur haft eyðileggjandi áhrif á líf hinsegins fólks. Við erum vonandi að ná slíkri víðsýni í okkar samfélagi að bara það eitt að alast upp samkynhneigður, í heimi þar sem gagnkynhneigð er normið, veldur ekki sálarangist sem fólk þarf að burðast með alla sína ævi.

Ástin er ekki alltaf tekin út með sældinni.

Betri leikari en Jerry Seinfeld

Það er aðalleikonan Mae Martin sem skrifar sjálf þættina ásamt leikskáldinu Joe Hampson og byggir þá að miklu leyti á eigin reynslu. Martin var hálfgert undrabarn í kandísku grínsenunni og hefur notið mikillar velgengni sem uppistandsgrínisti síðastliðin misseri. M.a. er hægt að sjá hana fara með gamanmál í þriðja þætti Comedians of the World á Netflix. 

Mig grunar að Martin líti ekki á sig sem leikkonu, ekki frekar en Jerry Seinfeld líti á sig sem leikara. Hún er í raun að leika einhverskonar útgáfu af sjálfri sér, líkt og Seinfeld í samnefndum þáttum. Það er þó hægt að setja hana skör hærra en Jerry hvað leikhæfileika varðar, þó hún eigi vart í vændum mikinn frama í dramatískum hlutverkum.  

Á móti henni leikur kunnuglegt andlit úr bresku sjónvarpi, Charlotte Ritchie, en hún er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Oregon í Fresh Meat, sem Netflix bauð upp á fyrir ekki svo löngu, en er því miður búið að taka út. Líkt og í fyrrnefndum þáttum leikur hún hér persónu sem reynir með augljósri sýndarmennsku að breiða yfir óöryggi sitt og afleiðingarnar vandræðalegar og broslegar. Gott dæmi er þegar hún talar við lesbískan barþjón og finnst hún knúin til að segja henni: „Ég á kærustu og putta hana helling.“ 

Lisu Kudrow bregður fyrir í hlutverki yfirþyrmandi móður Mae, en flestir ættu nú að þekkja hana sem Phoebe úr Vinum. Kudrow er sú Vinanna sem ég var minnst gefinn fyrir og gerir lítið til að auka álit mitt á henni hér. Hún er á stundum eins og skrattinn úr sauðarleggnum og ekki alveg í takti við hina performansana. 

Lisa Kudrow heldur á stundum að hún sé að leika í annarskonar þætti.

Þarf smá Öldu Kareni

Aðfinnslur mínar varðandi þáttaröðina eru í raun minniháttar og það var ekkert sem ég lét fara verulega í taugarnar á mér. Sjarmi og aðdráttarafl leikvennanna tveggja og sögunnar er slíkt að það deyfði pirring minn þegar framvindan tók upp á því að verða ótrúverðug. Það eru helst hlutir varðandi framvindu eiturlyfjafíknar Mae sem virka illa undirbyggðir og lítið atvik sem gerist á spítalaherbergi, sem hefur þó mikil áhrif á söguna, er full hentugt.

Þátturinn á það til að víkja frá þeim tóni sem hann hefur þegar ákvarðað (eins og t.d. þegar Kudrow mætir á svæðið). Það gerist nokkrum sinnum að kómísk augnablik virðast tekin úr öðrum þætti, þau verða of mikið „gríní-grín,“ eitthvað sem hafði þar á undan ekki verið ráðandi stef í þáttaröðinni. Oftast stafar slík úrvinnsla af óöryggi, en höfundar Feel Good hafa bara ekkert til að vera óöruggir með, ekki frekar en persónan Mae, sem áttar sig ekki á hversu frábær hún er. Hún þyrfti e.t.v. smá Öldu Kareni til að segja við hana: Þú ert nóg!       

Niðurstaða.

Fjórar stjörnur.

Skemmtileg og sjarmerandi þáttaröð um hluti sem skipta máli. 

Hægt er að hlýða á samtal Heiðars Sumarliðasonar og sviðslistakonunnar Bryndísar Ósk Ingvarsdóttur um Feel Good úr hlaðvarpsþættinum Stjörnubíói hér að neðan.

Klippa: Stjörnubíó - Feel Good af Netflix


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.