Skoðun

Hvers virði erum við?

Dröfn Vilhjálmsdóttir skrifar

Mér líður dálítið eins og að jörðin hafi verið að senda okkur öll inn í herbergi og skellt hurðinni reiðilega á eftir okkur með orðunum; “verið hér í nokkra mánuði og hugsið nú um hvað þið hafið gert ... og skammist ykkar!”

“Hvar værum við öll án almannavarna, heilbrigðisþjónustunnar, skólanna og lögreglunnar?” spurði Katrín Jakobsdóttir rétt áðan í ávarpi til þjóðarinnar. Nú þegar við stöndum berskjölduð gagnvart sameiginlegri vá sem ógnar heilsu allra í heiminum, burtséð frá stétt og stöðu, þá hafa þjóðirnar skilgreint lykilmanneskjur þjóðfélaga sinna. Þetta eru heilbrigðisstarfsmenn, þeir sem starfa með börnunum, lögreglan, almannavarnir, þeir sem starfa við þrif auk starfsfólks í matvöruverslunum og í matvælaframleiðslu.

Þannig að raunverulegu lykilmanneskjurnar eru til dæmis hjúkrunarfræðingarnir sem hafa verið samningslausir í eitt ár. Það eru kennararnir og leikskólakennararnir á lágum launum sem starfa í afar fjársveltu umhverfi skólanna. Það eru starfsmennirnir á elliheimilunum sem eru á lágmarkslaunum. Þetta fólk mætir núna til vinnu og tekur að sér yfirvinnu til þess að halda grunnstoðum samfélagsins gangandi samtímis sem það stofnar eigin heilsu og heilsu fjölskyldu sinnar í hættu. Í ofanálag setur þjóðfélagið á það kröfu um að sýna ábyrgð og halda sér í sóttkví á frítíma sínum til þess að vernda skjólstæðinga sína. Á meðan er lykilstarfsfólk til dæmis fjármálageirans og annað hálaunafólk innan einkageirans sent heim í sófann í fjarvinnu.

Rúmlega sjötugur faðir minn, langt leiddur af Alzheimer, dvelur á hjúkrunarheimili. Við fjölskyldan förum venjulega til hans hvern einasta dag og tökum mikinn þátt í umönnun hans. Nú höfum við ekki fengið að hitta hann í 15 daga. Við reiðum okkur fullkomlega á starfsfólkið á hjúkrunarheimilinu sem starfar venjulega við mjög þungar aðstæður, undirmönnun og álag. Núna hefur álagið á það aukist gríðarlega en það starfar þó enn fyrir lægstu launin í þjóðfélaginu.

Efnahagskerfið í heiminum er þannig í dag að golfkúla er metin sem verðmæti en það að hugsa um Alzheimer sjúkling, taka á móti barni, hamingja, sjálfsþekking, tilfinningagreind, heilsa, vellíðan, heilnæmt umhverfi, umönnun og kennsla er metið verðlaust í efnahagslegu samhengi.

Munum við koma út úr herbergjunum eftir að þessum stormi linnir með breytt gildismat? Ég vona að þessi heimsfaraldur geti leitt til þess við umbyltum forgangsröðuninni og áttum okkur á því hvar hin raunverulegu verðmæti liggja.

Höfundur er bókasafns- og upplýsingafræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×