Skoðun

Skriðu­föll og smá­virkjanir

Erla Björk Þorgeirsdóttir skrifar

Á aðventunni varð skelfileg eyðilegging á Seyðisfirði, aurskriður í kjölfar mikilla rigninga hafa valdið stórkostlegu eignatjóni og má það kallast mildi að ekki varð manntjón. Samkvæmt skýrslu á vef stjórnarráðsins um Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi frá því í júlí 2008 kemur fram á blaðsíðu 11 í kafla 1.2.3 að úrkomubreytingar verða miklar. Þar segir m.a.: „Á norðlægum svæðum fellur meiri úrkoma en fyrr sem rigning, en minni sem snjór. Mjög víða hefur helliregn aukist, jafnvel á svæðum þar sem dregið hefur úr heildarúrkomu.“ Á síðu 34 í sömu skýrslu segir um úrkomu á Íslandi: „Langtímamælingar viðrast gefa til kynna að úrkoma aukist um 4 til 8% við hlýnun um 1°C.“

Því miður hefur mannkyninu ekki gengið vel að snúa þróun hitastigs á jörðinni til betri vegar. Sífellt fleiri hitamet eru slegin og afleiðingin fyrir okkur hér á Íslandi er aukin úrkoma með aukinni hættu á skriðuföllum eins og þeim sem urðu á Seyðisfirði fyrir jól.

Þegar horft er á myndirnar og farveg Búðará slær því niður í hugann hvort að nýta mætti smávirkjanir til að draga úr hættu á skriðuföllum sem þessum. Hugsanlega mætti veita vatni úr hlíðum sem þessari í lón til að þurrka þær upp og slá tvær flugur í einu höggi og byggja flóðvarnir að hluta á því að virkja vatnið sem hættan stafar af.

Á vef Orkustofnunar er að finna skýrslu sem Vatnaskil vann fyrir stofnunina um kortlagningu smávirkjanakosta á Austurlandi. Þar er einn af möguleikunum fyrir Seyðisfjarðarkaupstað Búðará, þar sem hægt er að virkja 326 m fallhæð. Rennslið er ekki mjög mikið en þessi fallhæð er undirstaða þeirra ofurkrafta sem ollu svo miklu tjóni. Þó að uppsett afl sé ekki mikið gæti verið til þess vinnandi að virkja ár sem þessa, ef það getur samhliða þurrkað upp hlíðar sem annars geta farið af stað þegar mikið rignir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Verkfræðistofunnar AFL og ORKA.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.