Heimsmarkmiðin

„Ár prófrauna, harmleikja og tára“

Heimsljós
Sameinuðu þjóðirnar

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir kolefnisjafnvægi  fyrir árið 2050 helsta baráttumál samtakanna á næsta ári.

Kolefnisjafnvægi fyrir miðja öldina verður helsta baráttumál Sameinuðu þjóðanna á nýju ári. „Helsta metnaðarmál Sameinuðu þjóðanna árið 2021 verður að mynda alheimsbandalag í þágu kolefnisjafnvægis fyrir árið 2050,” segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri samtakanna í nýársávarpi fyrir 2021.

Í ávarpinu segir Guterres að árið 2020 hafi verið einstaklega erfitt og COVID-10 hafi sett líf fólks á hvolf og valdið þjáningu og sorg í heiminum - „ár prófrauna, harmleikja og tára“, eins og segir í frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC).

„Við höfum misst marga ástvini – og faraldurinn geisar enn með nýjum bylgjum veikinda og dauða,” segir Guterres. „Fátækt, ójöfnuður og hungur fara vaxandi. Störf tapast og skuldir aukast. Börn eiga erfitt uppdráttar. Heimilisofbeldi og óöryggi magnast hvarvetna.“

Í ávarpinu nefnir hann þó ýmsar ljósgætur í myrkrinu eins og að fólk hefði rétt nágrönnum og ókunnugum hjálparhönd, framlínustarfsfólk hafi lagt sig allt fram, vísindamenn hafi þróunar bóluefni á metttíma og ríki hafi tilkynnt um nýjar skuldbindingar til að koma í veg fyrir loftslagshamfarir.

„Loftslagsbreytingar og COVID-19 fela í sér kreppu sem einungis er hægt að glíma við í sameiningu,“ segir Guterres í ávarpinu og hvetur til aukinnar alþjóðlegrar samvinnu. „Með samstilltu átaki getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslagsbreytingar, stöðvað útbreiðslu COVD-19 og helgaði árið 2021 því að græða sár, sár af völdum banvænnar veiru, sár særðra hagkerfa og samfélaga, sár sundrungar. Og hefja lækningu plánetunnar. Þetta ættu að vera nýársheit okkar fyrir 2021,“ segir Guterres í nýársávarpinu með óskum um gleðiríkt og friðsælt nýtt ár.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×