Handbolti

Stelpurnar hans Þóris með langflestar stoðsendingar á EM en fæstar sendingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðinn Stine Bredal Oftedal fagnar einu marka Noregs á mótinu en Þórir Hergeirsson er að hugsa um næstu vörn.
Fyrirliðinn Stine Bredal Oftedal fagnar einu marka Noregs á mótinu en Þórir Hergeirsson er að hugsa um næstu vörn. EPA-EFE/Bo Amstrup

Það er óhætt að segja að norska kvennalandsliðið í handbolta spili markvissan handbolta á Evrópumótinu í Danmörku.

Mótshaldarar taka saman alls konar tölfræði á Evrópumótinu og þar á meðal heildarfjölda sendinga í leikjum liðanna.

Norska liðið hefur blómstrað á þessu Evrópumóti undir stjórn Þóris Hergeirssonar en Noregur hefur unnið alla sex leiki sína með samtals 69 mörkum eða 11,5 mörkum að meðaltali í leik.

Þrátt fyrir þessa miklu yfirburði þá er norska liðið ekki mikið með boltann á þessu móti.

Norsku stelpurnar hafa aðeins gefið samtals 2916 sendingar í leikjunum sex eða 486 að meðaltali í leik. Það er ekki mikið miðað við önnur lið mótsins.

Norska liðið er nefnilega langneðst af liðunum sem komust áfram í milliriðil en næsta lið fyrir ofan er Holland með 3609 sendingar.

Svartfjallaland hefur gefið flestar sendingar eða samtals 5215 eða 869 að meðaltali í leik. Það er næstum því tvöfalt fleiri sendingar en hjá þeim norsku.

Norska liðið er samt sem áður með langflestar stoðsendingar á mótinu eða 123 sem gera 20,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Næsta lið af þeim sem komust í milliriðla (Holland) er með 14,8 stoðsendingar í leik.

Þetta þýðir jafnframt að 123 af 2916 sendingum norska liðsins eru stoðsendingar eða 4,2 prósent. Hjá mótherjum Noreg í undanúrslitum, Danmörku, þá er sama tala 1,9 prósent (73 af 3779).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×