Skoðun

Hálendisþjóðgarður, lýðræði og framtíðarhagsmunir

Jón Jónsson skrifar

Frumvarp um stofnun Hálendisþjóðgarðs gerir ráð fyrir að þjóðgarður nái yfir svæði sem nær til þjóðlenda innan svokallaðrar miðhálendislínu. Svæðið er um 30-40% af Íslandi. Hluti þess er innan Vatnajökulsþjóðgarðs eða háður annarri friðlýsingu. Umfjöllun um málið beinist lítið að því hvort einhverjir ókostir fylgi núverandi stöðu og hverju er fórnað. Vont er ef misskilningur um það er notaður til að vinna málinu fylgi.

Er umsjón hálendisins hjá nokkrum fámennum sveitarfélögum í dag?

Nei. Stór hluti hálendisins eru þjóðlendur. Þær eru eign ríkisins en gert ráð fyrir að ráðstöfunarheimildir á þjóðlendum séu í meginatriðum sameiginlega hjá forsætisráðuneyti og sveitarfélögum. Þessari skipan var komið á og hún skýrð með þjóðlendulögum frá árinu 1998 og þar bent á mikilvægi aðkomu sveitarfélaga. Forsætisráðuneytið staðfestir allar ráðstafanir um nýtingu þjóðlenda ef gjald er tekið fyrir eða þær gerðar umfram eitt ár. Forsætisráðuneytið samþykkti stefnu um nýtingu þjóðlenda í febrúar 2019.

Umsjón hálendisins kemur einnig fram í stefnu skipulagsáætlana. Sveitarfélög vinna aðalskipulag, sem hvílir á landskipulagi, samþykktu af Alþingi, síðast í mars 2016. Í landskipulagi er sérstök umfjöllun um miðhálendið sem felur í sér að Alþingi markar meginstefnu um landnýtingu á hálendinu.

Er umsjón hálendisins nú óháð náttúruvernd?

Nei. Stefna forsætisráðuneytisins um nýtingu þjóðlenda, landskipulag og aðalskipulög sveitarfélaga byggja á ríku tilliti til náttúruverndar á hálendinu. Náttúruverndarlög fela jafnframt í sér almenna vernd og ný ákvæði um vernd óbyggðra víðerna hafa mikla þýðingu fyrir hálendið. Stjórntæki nýrra náttúruverndarlaga geta einmitt nýst sérstaklega þar. Við undirbúning hálendisþjóðgarðs hefur engin greining farið fram á svæðum sem ástæða er til að friðlýsa umfram önnur.

Byggja tillögur um afmörkun Hálendisþjóðgarðs á sérstökum náttúruverndarsjónarmiðum?

Nei. Hvorki svokölluð miðhálendislína né afmörkun þjóðlenda hefur nokkur tengsl við náttúrufar. Miðhálendislína var ákveðin um 1997 til að samræma skipulagsmál af samvinnunefnd miðhálendisins sem í sátu fulltrúar sveitarfélaga sem náðu til svæðisins. Þjóðlendur eru eignarréttarleg afmörkun lands og liggja innan og utan miðhálendislínu.

Mun stofnun hálendisþjóðgarðs færa umsjón hálendisins nær þjóðinni og lýðræðislega kjörnum fulltrúum?

Nei. Eignarréttarleg ráðstöfun þjóðlenda er nú hjá forsætisráðuneyti og einstökum sveitarstjórnum, en skipulagsleg hjá Alþingi og sveitarfélögum. Eðli máls samkvæmt hafa svo fagstofnanir og almenningur áhrif, t.d. við reglulega endurskoðun skipulagsáætlana. Í þjóðgarði færu stjórnir og umhverfisráðherra með eignarréttarlega og skipulagslega ráðstöfun, auk heimilda til reglusetningar um dvöl og starfsemi í garðinum. Í stjórnum sætu skipaðir fulltrúar sveitarfélaga, ráðherra o.fl., án beins lýðræðislegs umboðs.

Með þjóðgarði væri bæði fórnað lýðræðislegri aðkomu 2-300 kjörinna fulltrúa og heilbrigðri valddreifingu með aðkomu bæði sveitarfélaga og stjórnvalda á landsvísu.

Hafa hagsmunir af nýtingu hálendisins verið greindir með víðtækum hætti?

Nei. Í þjóðgarðsstofnun felst varanleg ráðstöfun lands í þágu afmarkaðra hagsmuna, einkum á sviði náttúruverndar og menningarsögu. Alþingi og stjórnvöld vinna að greiningu hagsmuna á landsvísu einkum í formi stefna eða landsáætlana á ýmsum sviðum. Ein þeirra landsáætlana varðar hagsmuni af orkuvinnslu, þ.e. rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Frumvarp um hálendisþjóðgarð aftengir það starf, bæði vegna virkjunarkosta undir mati 4. áfanga rammaáætlunar og vegna stórs hluta landsins, til allrar framtíðar.

Þá eru ótaldar aðrar landsáætlanir svo sem á sviði samgöngumála, fjarskipta, orkustefnu, kerfisáætlunar Landsnets o.fl. Hagsmunamat slíkra áætlana þyrfti eftir þjóðgarðsstofnun að hvíla á markmiðum hans. Möguleikar til mats á heildarhagsmunum lands- og þjóðar vegna hálendisins takmarkast verulega.

Þeir sem eru sannfærðir um kosti ráðstöfunar 30-40% landsins til afmarkaðra náttúrverndarhagsmuna, þar sem ekkert svigrúm verður til að horfa til annarra hagsmuna og stjórnendur án lýðræðislegs umboðs, fagna auðvitað hugmyndinni. Stjórnmálaflokkur með þá stefnuskrá var nýlega mældur með 7,4% fylgi.

Hvar takmarkast vald þjóðgarðs?

Stjórnun þjóðgarðs hvílir á stjórnunar- og verndaráætlun og reglugerðum sem styðja markmið þjóðgarðs. Afleiðingin verður sú að dvöl fólks og starfsemi á svæðinu er háð sérstökum reglum til viðbótar almennum lögum landsins. Hálendisþjóðgarður verður ríki í ríkinu. Starfsemi þjóðgarðs hefur mörg einkenni einræðisríkis, enda valdhafarnir ekki lýðræðislega kjörnir og vinna að þröngt afmarkaðri stefnu. Óánægju má kynna með bænaskrám en lýðræðið er óvirkt. Þetta getur verið ásættanlegt á afmörkuðum svæðum en ekki á 30-40% hluta landsins.

Því er haldið á lofti að Hálendisþjóðgarður yrði sá stærsti í Evrópu. Það virðast frekar rök gegn málinu. Engu ríki hefur dottið hug að standa að viðlíka ráðstöfun lands til þröngt afmarkaðra hagsmuna og skeytingarleysi um framtíðarhagsmuni. Ákvörðun um hálendisþjóðgarð er augljóslega ótímabær. Miklir kostir fylgja núverandi samábyrgð ríkis og sveitarfélaga og lýðræðislegri valddreifingu við umsjón hálendisins.

Jón Jónsson lögmaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.