Viðskipti erlent

Færeyingar gefa ekki frá sér olíudrauminn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borpallurinn West Hercules á Skálafirði í Færeyjum árið 2014. Hann var tekinn í klössun í Rúnavík eftir borun við eyjarnar.
Borpallurinn West Hercules á Skálafirði í Færeyjum árið 2014. Hann var tekinn í klössun í Rúnavík eftir borun við eyjarnar. Atlantic Supply Base

Mikill áhugi fyrir olíuleit í Færeyjum, segir í fyrirsögn Kringvarpsins, þar sem umhverfis- og atvinnumálaráðherra Færeyja, Helgi Abrahamsen, segir engin áform þar um að hætta olíuleit.

Tilefnið er ákvörðun danska þingsins í síðustu viku um að veita engin ný leyfi til olíuleitar og að allri olíuvinnslu verði hætt árið 2050.

Í viðtalinu segir færeyski ráðherrann að olíunotkun muni halda áfram að aukast í heiminum og það þurfi ekki að vera neikvætt. Olía sem leysi af kolaorku sé liður í grænum orkuskiptum. Þá hafi olíu- og gasfundir Hjaltlandsmegin miðlínunnar við Færeyjar aukið áhuga á færeyska landgrunninu.

„Dyrnar standa opnar,“ segir Helgi Abrahamsen og vísar til þess að Jarðfeingi, Orkustofnun þeirra Færeyinga, bjóði upp á „open door“-fyrirkomulag. Það þýðir að olíufélögum er frjálst að sækja um leitarleyfi við Færeyjar hvenær sem er.

Í fréttaþætti Kringvarpsins, Dagur og vika, er olíuleitarsaga Færeyinga rakin. Rætt er við Jan Müller, talsmann olíuiðnaðarins í Færeyjum, þar sem hann setur möguleika Færeyinga í samhengi við olíufundi við Hjaltlandseyjar.

Þá eru þau Elsa Berg, fulltrúi umhverfissamtakanna Ringrás, og Ben Arabo, stjórnarformaður Atlantic Petroleum, leidd saman í kappræðu um skynsemi þess að halda áfram olíuleit og olíuvinnslu.

Færeyingar buðu síðast út olíuleit í fyrra og þá barst engin umsókn, eins og lesa má um í þessari frétt:

Síðasta olíuborun í lögsögu Færeyja fór fram árið 2014 sem fjallað var um í þessari frétt á Stöð 2:


Tengdar fréttir

Veita engin ný leyfi til olíuleitar

Danska þingið samþykkti í gær að veita engin ný leyfi til olíuleitar í Norðursjó. Loftslagsmálaráðherra landsins sagði ákvörðunina sögulega.

Grænlendingar kynna olíuleit norðan Íslands

Grænlensk stjórnvöld hafa kynnt umhverfismat vegna fyrirhugaðrar olíuleitar við Austur-Grænland, beint norður af Íslandi. Matsskýrslan fjallar meðal annars um áhrif olíuleka á lífríki sjávar milli Íslands og Grænlands.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×