Skoðun

Þjóðgarður er tækifæri

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar

Við stöndum nú frammi fyrir því einstaka tækifæri að geta komið á þjóðgarði á hálendinu. Unnið hefur verið að málinu árum saman. Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sammæltust um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að á kjörtímabilinu yrði komið á miðhálendisþjóðgarði. Unnið hefur verið að því allt kjörtímabilið og skilaði þverpólitísk nefnd, með fulltrúum allra flokka, af sér tillögum fyrir sléttu ári, í desember 2019. Aðeins fulltrúi Miðflokksins studdi þær ekki. Tækifærin í stofnun þjóðgarðs eru mýmörg.

  • Aðdráttarafl þjóðgarðsins verður mikið, ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu verða innan hans, og það skapar Íslandi sérstöðu, styrkir ímynd þess og dregur að gesti.
  • Þjóðgarður styður við ferðaþjónustu í landinu og byggðir í jaðri hans.
  • Þjóðgarður skapar fjölda starfa í dreifðari byggðum landsins. Sem dæmi má nefna að í Vatnajökulsþjóðgarði voru samtals 34 ársverk fastra starfsmanna haustið 2020, þar af 30 á starfssvæðum þjóðgarðsins en fjögur á höfuðborgarsvæðinu. Þá voru 114 einstaklingar við sumarstörf í þjóðgarðinum sl. sumar, allt störf úti á landsbyggðinni.
  • Þjóðgarður skapar tekjur fyrir nærumhverfi sitt, eins og allar rannsóknir sýna.
  • Þjóðgarður stuðlar að rannsóknum og fræðslu um miðhálendið.
  • Þjóðgarður bætir aðgengi og stuðlar að því að almenningur geti stundað útivist innan hans í sátt við náttúruna.
  • Þjóðgarður tryggir skýra aðkomu hagaðila að þjóðlendum og að stefnumótun svæðisins.
  • Þjóðgarður yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum hingað til.

Við, sem stöndum frammi fyrir þessu tækifæri, þurfum að standa undir þeirri ábyrgð að fylgja þeirri góðu stefnumótun sem unnið hefur verið að öll þessi ár. Málið þarf að komast sem fyrst til nefndar og til umsagnar, svo öll þau fjölmörgu sem hafa á því skoðun hafi vettvang til að koma henni á framfæri.

Það er bjargföst trú mín að þegar búið er að skilja að allar þær rangfærslur og misskilning sem uppi eru í umræðunni, sé aðeins ein niðurstaða möguleg þeim sem nálgast málið faglega; Hálendisþjóðgarður skapar ótal tækifæri sem vítavert væri að nýta ekki.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.