Viðskipti innlent

Svona var kynningar­fundur ríkis­stjórnarinnar fyrir styrki vegna Co­vid-19

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fer yfir styrkina á fundinum í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fer yfir styrkina á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin boðaði til kynningarfundar á framhaldi viðspyrnuaðgerða í Hörpu í dag klukkan 15. Fundurinn var sendur út frá Silfurbergi og var streymt beint hér á Vísi og á Stöð 2 Vísi.

Klippa: Upplýsingafundur ríkisstjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, komu fram á fundinum.

Fram kom í tilkynningu frá ríkisstjórninni á dögunum að heimili og fyrirtæki hafi fengið 38,2 milljarða króna í beinan stuðning frá ríkinu vegna kórónuveirufaraldursins til þessa. Tæpir 20 milljarðar hafa einnig farið í frestun skattgreiðslna, 20 milljarðar í frestun aðflutningsgjalda og 6.6 milljarðar hafa verið lánaðir með ríkisábyrgð að því er fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Fyrir árslok munu heimilin auk þess hafa fengið fyrirframgreiddan séreignarsparnað upp á 21 milljarð króna. Sökum aðgerðanna stefndi í að ríkisstjóður verði rekinn með 260 til 270 milljarða króna halla árin 2020 og 2021 í stað þess að vera nærri í jafnvægi líkt og stefnt var að fyrir faraldurinn. Það sé þó að mestu vegna sjálfvirks viðbragðs skattkerfis og atvinnuleysisbóta við minni efnahagsumsvifum.

Fram kom að úrræði stjórnvalda hefðu verið nýtt af um þrjú þúsund fyrirtækjum og um 65% fjárhæðarinnar farið til fyrirtækja í ferðaþjónustu eða skyldum greinum. Í öllum stærstu úrræðunum að lokunarstyrkjum frátöldum hafi ferðaþjónustan verið fyrirferðarmest. Í lokunarstyrkjunum hafi mest verið greitt til fyrirtækja í ýmissi persónulegri þjónustu og heilbrigðisþjónustu.

Þá var nefnt að viðspyrnustyrkir væru í vinnslu en það eru þeir sem kynna á til sögunnar í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×