Handbolti

Formaður HSÍ segir að Íslandi verði með á HM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson er fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins en hér er hann á síðasta HM í handbolta árið 2019.
Aron Pálmarsson er fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins en hér er hann á síðasta HM í handbolta árið 2019. Getty/ TF-Images

Fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins vill ekki að HM í handbolta fari fram í janúar vegna kórónufaraldursins en formaður HSÍ segir að íslenska landsliðið muni taka þátt.

Aron Pálmarsson sagði frá þeirri skoðun sinni í viðtali við þýska miðilinn NDR að vann vilji að HM í handbolta í Egyptalandi í janúar 2021 verði aflýst. Það eru ekki miklar líkur á því að honum verði að ósk sinni.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sagði það í viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 að það ekki megi lesa það úr orðum landsliðsfyrirliðans að hann vilji ekki spila.

Handknattleiksamband Íslands er líka í góðum samskiptum við mótshaldara.

„Við erum reglulega á fundum með alþjóða handknattleikssambandinu og mótshöldurum og við erum búin að fara yfir það hvernig staðið verður að mótinu,“ sagði Guðmundur í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Leikmenn liðanna 32 á mótinu munu fara inn í búbblu eins og tíðkast hefur hjá öðrum íþróttum. Þeir þurfa því að vera inn á hóteli alla daga og mega bara fara þaðan og í íþróttasalinn. Engin snerting verður leyfð við þá sem eru ekki að taka þátt í heimsmeistaramótinu.

HM fer að þessu sinni fram á heimavelli forseta Alþjóðahandboltasambandsins sem er Egyptinn Hassan Moustafa. Það eru því ekki miklar líkur á því að heimsmeistaramótinu verði aflýst þrátt fyrir mikið flækjustig og skæðan heimsfaraldur.

Það þarf líka ekkert að koma mörgum á óvart að það eru peningarnir sem ráða för en auðvitað snýst þetta líka um útbreiðslu handboltaíþróttarinnar.

„Tekjur alþjóða handknattleikssambandsins snúast um þessa heimsmeistarakeppni og halda sjónvarpsréttum í gangi og viðhalda íþróttinni og athygli á henni og þess vegna reyna menn í lengstu lög að halda þessi mót,“ sagði Guðmundur.

„Ég geri ráð fyrir því, nema eitthvað sérstakt komi upp á, að við verðum þátttakendur á mótinu og miðum allan okkar undirbúning við það,“ sagði Guðmundur í spjallinu sem hlusta á má allt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×