Skoðun

At­vinnu­lífið tekur við keflinu!

Soffía Sigurgeirsdóttir og Stella Samúelsdóttir skrifa

UN Women hefur verið í fararbroddi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og efnahagslegri valdeflingu kvenna á heimsvísu. Byggt á þeim áherslum var Jafnréttissáttmáli UN Women og Global Compact kynntur til að stuðla að aukinni samfélagsábyrgð fyrirtækja í átt að auknu jafnrétti á vinnumarkaði.

Árið 2014 ákváð UN Women á Íslandi í samstarfi við Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð að setja á laggirnar Hvatningarverðlaun jafnréttismála. Árið 2017 bættist svo Háskóli Íslands í hóp samstarfsaðila.

Markmiðið með verðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem hafa stuðlað að jafnrétti á markvissan hátt innan sinna fyrirtækja og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Aukið jafnrétti á atvinnumarkaði er ekki einungis lagalega og siðferðislega rétt heldur er það fyrirtækjum til heilla bæði út frá samfélagslegri ábyrgð og viðskiptalegum forsendum.

Frá árinu 2014 hafa verðlaunin verið veitt alls sex sinnum til fyrirtækja sem valin hafa verið af dómnefnd vegna áherslna sinna í jafnréttismálum. Á árinu 2014 hlaut Rio Tinto verðlaunin, árið 2015 Orkuveitan, árið 2016 hlaut Íslandsbanki verðlaunin, árið 2017 Vodafone, Sagafilm fékk verðlaunin árið 2018 og á síðastliðnu ári hlaut Landsvirkjun Hvatningaverðlaun jafnréttismála. Öll þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að stjórnendur þeirra tóku ákvörðun að breyta stöðunni og efla jafnrétti innan fyrirtækja sinna. Stjórnendur þessara fyrirtækja eru allir sammála um að sú ákvörðun hafi gert fyrirtækið að betra fyrirtæki. Nú er komið að því að veita verðlaunin í sjöunda sinn á rafrænum viðburði þann 18. nóvember næstkomandi.

Á þessum árum hafa mörg framfaraskref verið tekin af atvinnulífinu í jafnréttismálum og því ber að fagna. Því teljum við hjá UN Women á Íslandi á þessum tímapunkti, að lokinni afhendingu verðlaunanna í ár, sé komið að því að UN Women á Íslandi dragi sig út úr samstarfinu sem framkvæmdaraðila Hvatningarverðlauna jafnréttismála og afhendir keflið að fullu Samtökum atvinnulífsins og Háskóla Íslands. Það er enn langt í land einkum hvað varðar kynjahlutföll stjórnenda, en við teljum að atvinnulífið sé reiðubúið að leiðrétta það hratt. Stjórnendur eru orðnir meðvitaðir um að jafnréttismál hafa með samkeppnishæfni fyrirtækja að gera. Rannsóknir sýna að fjárfesting í valdeflingu kvenna á atvinnumarkaði dregur úr fátækt, eykur hagvöxt og hefur jákvæð áhrif á sjálfbæra þróun.

Við erum þess fullviss að á þessum tímapunkti sé atvinnulífið vel í stakk búið að halda merkjum jafnréttis á lofti og muni halda áfram á þeirri gríðarlegu mikilvægu vegferð að jafna hlut kvenna í atvinnulífinu. Við þökkum fyrir gott samstarf og hlökkum til að fylgjast með á hliðarlínunni.

Soffía Sigurgeirsdóttir, stjórnarkona UN Women á Íslandi.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.