Skoðun

Á­byrg leið til upp­byggingar er fjár­mögnuð og græn

Ellen Calmon skrifar

Í dag hefst landsfundur Samfylkingarinnar þar sem jafnaðarfólk fylkist um framtíðarsýnina Ábyrg leið - úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Landsfundurinn er með breyttu sniði í ljósi heimsfaraldursins þar sem félagsfólk hittist nú á skjánum, ræðir framtíð samfélagsins, setur sér stefnu og ályktar, kýs fólk í trúnaðarstöður og þéttir raðirnar.

En öll söknum við þess að hittast ekki í raun og drekka kaffi saman, eins og á almennilegum fundi. Við finnum öll fyrir ógnarvaldi faraldursins og við gerum okkur svo áþreifanlega grein fyrir því að hann hefur haft og mun hafa afgerandi afleiðingar fyrir samfélagið allt.

Þess vegna höfum við í Samfylkingunni sett fram skýra stefnu um hvernig við ætlum að bretta upp ermar og takast á við ástandið og afleiðingar þess. Það gerum við á ábyrgan hátt, með „Ábyrgu leiðinni“ þar höfum við lagt niður fyrir okkur hvernig við, ásamt þér lesandi góður, rífum Ísland upp úr atvinnukreppu og þeytum því fram til grænnar framtíðar. Ábyrga leiðin felur í sér græna uppbyggingu um land allt þar sem við leggjum meðal annars áherslu á vinnu og velferð, fjölgun starfa, eflingu Tækniþróunarsjóðs, aukin framlög til launasjóða listamanna og hröðun orkuskipta svo eitthvað sé nefnt.

Ábyrga leið Samfylkingarinnar hefur verið kostnaðarmetin. Heildarkostnaður áætlunarinnar nemur rúmum 80 milljörðum króna á árinu 2021 eða um 2,6 prósentum af vergri landsframleiðslu, en með þeirri fjármögnum ríkisins sem við gerum ráð fyrir í áætluninni, þá má áætla að nettókostnaður ríkissjóðs nemi um fimmtíu milljörðum króna. Þessi útgjöld eru áætluð að mestu leyti vegna tímabundinna aðgerða. Við teljum þjóðhagslega ábyrgt að fjármagna þessar aðgerðir með skuldsetningu ríkissjóðs en ekki skattahækkunum. Í ábyrgu leiðinni setjum við fram skýr og kostnaðarmetin skref.

Nánar um „Ábyrgu leiðina – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar“ hér

Höfundur er varaborgarfulltrúi í framboði til framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×