Gagnrýni

The Queen's Gambit: Drykkja og dóp, skák og mát

Heiðar Sumarliðason skrifar
Anya Taylor-Joy leikur Beth í Netflix-þáttaröðinni Queen's Gambit.
Anya Taylor-Joy leikur Beth í Netflix-þáttaröðinni Queen's Gambit.

Bandaríski rithöfundurinn Walter Tevis er þekktastur fyrir skáldsögur sínar The Hustler og The Color of Money um pool-spilarann "Fast Eddie" Felson. Það liðu tvö ár frá því að bækurnar komu út árið 1959 og 1984, þar til að þær voru komnar í kvikmyndahús. 

Það liðu hins vegar 37 ár frá því að fimmta skáldsaga Tevis, The Queen's Gambit, kom út og þar til hún var kvikmynduð. Aftur var sögusvið Tevis svona eins konar „hálfíþrótt,“ en The Queen's Gambit fjallar um unga skákkonu. Kvikmyndarétturinn var þó keyptur um leið og bókin kom út, en ekkert gekk að koma henni á koppinn. Handritshöfundurinn Alan Scott keypti svo réttinn á bókinni árið 1993 og reyndi að koma henni á hvíta tjaldið. Það gekk þó ekki og lá verkefnið því óhreyft þar til leikarinn Heath Ledger ákvað að hans fyrsta leikstjórnarverkefni yrði kvikmyndun bókarinnar. Það virtist loks ætla að ganga upp að festa bókina á filmu, en aldrei varð þó úr því, þar sem nokkrum mánuðum fyrir fyrsta tökudag lést Ledger og verkefnið datt upp fyrir í kjölfarið. Alan Scott er aftur á móti einstaklega þrautseigur náungi og draumaverkefnið hans hefur nú loks litið dagsins ljós.

Framvindan greip

Líkt og í vegferð The Queen's Gambit á filmu, þá fellur ekkert með aðalpersónu þáttanna (Beth) til að byrja með. Átta ára gömul missir hún móður sína í bílslysi og flytur þá á munaðarleysingjaheimili. Þegar þetta á sér stað í sögunni varð mér strax hugsað til þeirra fjölmörgu kvikmynda sem gerast á munaðarleysingjaheimilum, sem oftast eru hræðilegar sögur af misnotkun og mannvonsku. Ég hugsaði því með mér: Enn eitt munaðarleysingja tilfinningaklámið. Ég beið því eftir að einhver starfsmaður færi að berja greyið Beth, eða aðrir munaðarleysingjar myndu leggja hana í einelti. 

Það kom mér því í opna skjöldu, að eftir heldur rólegar fyrstu 25 mínúturnar, var enginn búinn að vera sérlega illkvittinn við Beth. Það sem meira er, framvindan greip mig og sleppti ekki þar til yfir lauk.

Annie og Ms. Hannigan í Annie frá 1982.

Ég er ótrúlega feginn að ekki var farið í hinar hefðbundnu klisjur um munaðarleysingja. Jú jú, Beth upplifir „hard knock life,“ enda ekkert grín að vera foreldralaus. Við fengum þó enga illgjarna Miss Hannigan (Annie) eða siðlausan Fagin (Oliver Twist). Fólkið í kringum Beth hegðar sér bærilega og það er ekkert stelpugengi sem leggur hana í einelti. Beth er svo ættleidd af barnlausum hjónum og gengur í dæmigerðan úthverfa high school. Hún lendir reyndar í einelti þar, það er því spurning hvort það sé einhver sögn í að hún fái nokkurn veginn frið á munaðarleysingjaheimili, en sé svo áreitt af krökkum sem eiga allt til alls. 

Það eina sem komst nálægt því að angra mig var lyfjafíkn og drykkja Beth, sem er orðið helst til ofnotað mótíf, en það slapp þó fyrir horn.

Látleysi og ró

Það að ekki sé farið mjög langt í mannvonskunni segir margt um stíl þáttanna, sem er í takti við lágstemmda túlkun Anya Taylor-Joy á skákséníinu Beth. Það er látleysi og ró yfir frásögninni, sem í einhverjum tilfellum væri ávísun á langdregið sjónvarpsefni, en svo er alls ekki í tilfelli The Queen's Gambit.

Áhorfinu mætti líkja við það að eiga rólega gæðastund með manneskju sem hefur þægilega nærveru. Enda getur slíkt verið alveg jafn nærandi og stuð í stórum hópi. Það er ekki þar með sagt að þættirnir séu ekki spennandi á sinn máta, það er bara á lágstemmdum nótum, enda skákin íþrótt þeirra íhugulu. 

Benny Watts er frábær persóna. Kúrekahattur, leðurfrakki og hnífur. Staðalbúnaður fyrir lúða.

Frammistaða Taylor-Joy á stóran þátt í því hversu vel The Queen's Gambit virkar, því sú ára sem hún býr yfir er fullkomin inn í samhengi og stíl þáttanna. Aðrar persónur og leikendur styðja vel við bakið á henni, sérstaklega gustar af Bretanum Thomas Brodie-Sangster, sem leikur „kúrekann“ Benny Watts og einnig er Marielle Heller góð í hlutverki sínu sem fósturmóðir Beth.

Munu stelpurnar fara að tefla?

Þó að erfiðlega hafi gengið að koma Gambít drottningarinnar fyrir framan myndavélarnar, er sagan enn jafn viðeigandi og hún var þegar hún kom út árið 1983, því við erum enn að fást við sömu grunnmálin og bókin fjallar um. Enn er fólk að reyna að brjóta sér leið inn á staði sem það er e.t.v. ekki sérlega velkomið, því það passar ekki inn í hin fyrirframgerðu mót. Hvort sem það er að mæta í nýjan skóla í gömlum fötum, eða á skákmót í pilsi. 

Það verður áhugavert að sjá hvort þessir þættir hafi áhrif á þátttöku stúlkna í skák, því í dag er aðeins ein kona á listanum yfir hundrað sterkustu skákmenn heims. Ég trúi því eiginlega ekki að það sé út af neinu öðru en samfélagsgerð og kúltúr. Það er varla eitthvað í skákíþróttinni sem dregur karlmenn frekar að taflborðinu en konur, annað en að fyrirmyndirnar eru allar karlmenn. Það er vonandi að The Queen's Gambit blási glæður í áhuga stúlkna á skákinni. Ekki bara af því pulsupartí eru leiðinleg, heldur líka til að undirstrika hversu mikil jákvæð áhrif kvikmyndir og sjónvarp geta haft á fólk. Það má nefnilega líka tala vel um sjónvarp og bíó. 

Niðurstaða:

Það er eitthvað dáleiðandi við The Queen's Gambit sem dregur áhorfandann með sér í látlaust ferðalag um heim skákarinnar.

Hægt er að hlýða á Heiðar Sumarliðason ræða við sviðslistakonuna Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur og rithöfundinn Snæbjörn Brynjarsson um The Queen's Gambit í Stjörnubíói hér að neðan.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×