Þýskaland vann Bosníu 25-21 í dag í undankeppni EM. Þetta var fyrsti leikur Þjóðverja undir stjórn Alfreðs Gíslasonar sem tók við þjálfun liðsins í febrúar.
Sigurinn var ansi torsóttur því Bosníumenn voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 13-9, þrátt fyrir að vera aðeins með 11 manna hóp og enga örvhenta skyttu, vegna kórónuveiruvandræða.
EHF Euro 2022 Qualifiers:
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) November 5, 2020
Germany 9-13 Bosnia Herzegovina (halftime)!
Bosnia play with only 11 players and no left handed right backs, but led by experienced Prce and the Buric brothers they are doing an amazing job.
If Bosnia against expectation win, it would be sensational!
Í seinni hálfleik voru hinir nýju lærisveinar Alfreðs fljótir að jafna metin og komast yfir. Spenna var þó í leiknum allt til enda og aðeins 2-3 marka munur á lokamínútunum, þar til að Þjóðverjar skoruðu síðasta markið og tryggðu sér fjögurra marka sigur.
Hendrik Pekeler var markahæstur Þjóðverja með 5 mörk en Kai Häfner og Uwe Gensheimer skoruðu 4 mörk hvor. Hjá Bosníu var Nikola Prce markahæstur með 8 mörk.
Þýskaland er því með tvö stig líkt og Austurríki sem vann Eistland 31-28 í gær í sama riðli. Á sunnudag mæta Þjóðverjar Eistlendingum í Tallin en Bosnía tekur á móti Austurríki.