Viðskipti innlent

Ríkis­stjórnin kynnir frekari efna­hags­að­gerðir til sögunnar

Sylvía Hall skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að grípa til frekari efnahagsaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins til þess að sporna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum faraldursins á fyrirtæki og rekstraraðila. Frumvarp um tekjufallsstyrki verður víkkað og viðspyrnustyrkir kynntir til sögunnar.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja til við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að breytingar verði gerðar á frumvarpi um tekjufallsstyrki svo úrræðið nái til fleiri rekstraraðila og gildi í lengri tíma. Eru styrkirnir hugsaðir til þess að styðja við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins, án þess að hafa verið gert að loka, frá 1. apríl til 31. október.

Þá verður nýtt úrræði, viðspyrnustyrkir, lagt fram í frumvarpi sem nú er í undirbúningi. Viðspyrnustyrkirnir verða veittir í framhaldi af tekjufallsstyrkjum og fram á næsta ár. Þeim er ætlað að tryggja að fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins „geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist,“ líkt og segir í tilkynningu.

Breytingar á tekjufallsstyrkjum eru eftirfarandi:

Fallið er frá skilyrðum um hámarksfjölda starfsmanna (3 skv. frumvarpi);

Lagt er til að styrkir verði veittir fyrir allt að 5 stöðugildi;

Styrkfjárhæð tekur mið af rekstrarkostnaði og tekjufalli: rekstraraðilar sem verða fyrir 40-70% tekjufalli geta átt rétt á styrk að fjárhæð 400 þús.kr. á mánuði á hvert stöðugildi, en sé tekjufallið 70-100% getur styrkur orðið 500 þús.kr. á hvert stöðugildi á mánuði;

Tímabil er lengt í sjö mánuði frá 1. apríl sl. að telja;

Hámarksstyrkur verður samkvæmt þessu 17,5 m.kr. á rekstraraðila.

Þá hefur ríkisstjórnin rætt mögulega framlengingu hlutabótaleiðar, sem rennur út um áramótin, og hefur félags- og barnamálaráðherra hafið undirbúning að framlengingu hennar.

„Loks má nefna að Alþingi hefur til meðferðar frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um framhald lokunarstyrkja. Í því felst að heimildir til greiðslu lokunarstyrkja miðast ekki eingöngu við takmarkanir sóttvarnaryfirvalda sem þegar hafa komið til framkvæmda heldur taka einnig til frekari takmarkana sem kunna að koma til síðar.“

Dæmi um styrkveitingar miðað við framangreindar breytingar á fyrirliggjandi frumvörpum:

Rekstraraðili með fimm starfsmenn eða fleiri sem gert var að loka (lokunarstyrkur og tekjufallsstyrkur)

Lokunarstyrkur í vor

3.600.000

Lokunarstyrkur í sept

1.000.000

Lokunarstyrkur í okt og til 3. nóv

2.900.000

Tekjufallsstyrkur ef 70% - 100% tekjufall

17.500.000

Hámark tekjufallsstyrks ef rekstraraðili hefur fengið hámark lokunarstyrkja fyrir lokanir til 3. nóv.

10.000.000



Rekstraraðili með 5 starfsmenn eða fleiri sem ekki var gert að loka en myndi eingöngu eiga rétt á tekjufallsstyrk – miðast við hámark tekjufallsstyrks

70% - 100% tekjufall: 17.500.000 - 2.500.000 á hvern mánuð

40% - 70% tekjufall: 14.000.000 - 2.000.000 á hvern mánuð


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×