Viðskipti innlent

Allt að 3,5 milljarðar í tekju­falls­styrki til ferða­þjónustunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ferðamenn njóta sumarsins á Þingvöllum.
Ferðamenn njóta sumarsins á Þingvöllum. Vísir/Vilhelm

Áætlað er að tekjufallsstyrkir vegna kórónuveirufaraldursins til minni ferðaþjónustufyrirtækja, leiðsögumanna og fleiri geti numið um 3,5 milljörðum króna. Umræddir ferðaþjónustuaðilar munu geta sótt um styrkina samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki, sem hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að styrkirnir muni jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geti þó ekki orðið hærri en 400 þús.kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu. Verði frumvarpið að lögum þurfa rekstraraðilar að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Að hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020.
  • Að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila.
  • Umsækjendur þurfa að auki að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.

Tekjufallstyrkir geti orðið allt að 3,5 milljarðar króna ef öll fyrirtæki nýta sér þá. Upphæðin miðast við að öll félög uppfylli skilyrðin um minnst 50% tekjufall fyrir nýtingu úrræðisins. Þannig getur hámarksstyrkur til hvers fyrirtækis numið 1,2 milljónum króna á mánuði í þá 18 mánuði sem gert er ráð fyrir að úrræðið gildi, eða alls 21,6 milljónum króna.

Tekjufallsstyrkir eru liðir í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Áður hafa verið kynntar 4,6 milljarða króna aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar auk almennra aðgerða ríkisstjórnarinnar fyrir rekstraraðila vegna heimsfaraldursins. 

Á meðal sértækra aðgerða má nefna alþjóðlegt markaðsátak, átak til að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands, Ferðagjöf til landsmanna sem enn er hægt að nýta og afnám gistináttaskatts til ársloka 2021. Ferðaábyrgðasjóður hefur einnig verið settur á laggirnar og er umsóknarfrestur í hann til 1. nóvember næstkomandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×