Viðskipti erlent

Framleiðandi Oxycontins játar sekt og greiðir milljarða

Kjartan Kjartansson skrifar
Purdue Pharma markaðssetti Oxycontin grimmt. Það er sterkt verkjalyf sem var lengi vel aðeins langt leiddum krabbameinssjúklingum. Fyrirtækið kom því til leiðar að læknar skrifuðu upp á það til fólks með þráláta verki. Margir urðu háðir og hundruð þúsunda létust í Bandaríkjunum í kjölfarið. Þá eru ótaldir þeir sem hafa beðið bana annars staðar, þar á meðal á Íslandi.
Purdue Pharma markaðssetti Oxycontin grimmt. Það er sterkt verkjalyf sem var lengi vel aðeins langt leiddum krabbameinssjúklingum. Fyrirtækið kom því til leiðar að læknar skrifuðu upp á það til fólks með þráláta verki. Margir urðu háðir og hundruð þúsunda létust í Bandaríkjunum í kjölfarið. Þá eru ótaldir þeir sem hafa beðið bana annars staðar, þar á meðal á Íslandi. AP/Douglas Healey

Purdue Pharma, bandaríska lyfjafyrirtækið sem framleiðir sterka verkalyfið Oxycontin, ætlar að játa sig sekt um mútugreiðslur og samsæri og greiða meira en átta milljarða dollara til að ná sátt í máli bandarísku alríkisstjórnarinnar gegn því. Sáttin útilokar ekki að eigendur eða stjórnendur fyrirtækisins verði dregnir til ábyrgðar fyrir ópíóíðafaraldurinn í Bandaríkjunum.

Hátt í hálf milljón Bandaríkjamanna hefur látið lífið vegna ópíóíðafíkni og ofneyslu frá árinu 2000. Sérfræðingar segja að það hafi verið Oxycontin sem hafi verið meginorsök þess að sá faraldur fór af stað. Framleiðendur lyfsins hafa lengi þrætt fyrir að það sé ávanabindandi. Fyrirtækið framleiddi milljónir pillna af lyfinu á sama tíma og faraldurinn geisaði.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að það hefði náð sátt við Purdue Pharma sem alríkissaksóknarar hafa haft til rannsóknar vegna markaðssetningar á Oxycontin. Stjórnendur fyrirtækisins óskuðu eftir því að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta í fyrra.

AP-fréttastofan segir að Purdue Pharma ætli að viðurkenna sekt sína í þremur ákæruliðum sem bandaríska dómsmálaráðuneytið lagði fram, þar á meðal um samsæri og mútur. Þrotabú fyrirtækisins greiðir meira en 1.100 milljarða íslenskra króna og er það hæsta upphæð sem bandarískt lyfjafyrirtæki hefur greitt í sátt vegna ópíóíðafaraldursins.

Með sáttinni gengst fyrirtækið við því að hafa blekkt Lyfjastofnun Bandaríkjanna (DEA) um að það ynni að því að koma í veg fyrir misnotkun lyfsins og veitt henni rangar upplýsingar til þess að geta aukið framleiðslukvóta sína. Það viðurkennir einnig að hafa brotið lög þegar það greiddi læknum til þess að skrifa upp á ópíóíðalyfið og notað fyrirtæki sem hélt utan um heilbrigðisgögn til þess að hafa áhrif á hvaða verkjalyf læknar skrifuðu upp á.

Í samkomulaginu við dómsmálaráðuneytið segir þannig að fyrirtækið hafi vísvitandi lagt á ráðin um að láta skrifa upp á lyfið án lögmætrar læknisfræðilegrar ástæðu og utan hefðbundinna leiða.

„Múturnar kom markaðsdeild Purdue í reynd inn á læknastofuna með þumalinn á vogina einmitt á því augnabliki sem læknar tóku mikilvægar ákvarðanir um heilsu sjúklinga,“ sagði Christina E. Nolan, alríkissaksóknari í Vermont, þegar sáttin var kynnt.

Purdue er í eigu Sackler-fjölskyldunnar sem hefur legið undir harðri gagnrýni fyrir að hafa makað krókinn á meðan þúsundir manna létu lífið af völdum lyfsins sem fyrirtækið gekk hart fram í að markaðssetja. Sáttin í dag útilokar ekki að hún eða stjórnendur Purdue verði síðar sóttir til saka.

Í yfirlýsingu í dag hafnaði fjölskyldan því að hún hefði gert nokkuð saknæmt og skellti skuldinni á einstaka stjórnendur fyrirtækisins sem hefðu framið afbrot.

„Enginn úr Sackler-fjölskyldunni tók þátt í þessari hegðun eða var í stjórnandahlutverki hjá Purdue á þessu tímabili,“ sagði fjölskyldan í yfirlýsingunni.

Washington Post segir að fjölskyldan hafi engu að síður sæst á að greiða 225 milljónir dollara, jafnvirði rúmlega 31 milljarðs íslenskra króna, í einkaréttarkröfu í málinu vegna athafna hennar sem eigendur fyrirtækisins til að auka sölu á Oxycontin.

Ekki eru allir sáttir við að Sackler-fjölskyldan hafi sloppið með skrekkinn að þessu sinni. Maura Healey, dómsmálaráðherra Massachusetts, sakaði dómsmálaráðuneytið um að hafa brugðist með því að hafa ekki gengið harðar fram gegn Purdue og Sackler-fjölskyldunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×